Tenglar

mynd, Gunnar Sverrisson
mynd, Gunnar Sverrisson
1 af 2

Háskóli Íslands og Þörungamiðstöð Íslands hf. hyggjast vinna saman að því að efla rannsókna- og þróunarstarf í tengslum við sjálfbæra nýtingu sjávarþörunga á Reykhólum við Breiðafjörð. Þetta kemur fram í viljayfirlýsingu sem Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Finnur Árnason, framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar hf., undirrituðu fyrir helgi.

 

Þörungamiðstöð Íslands er í eigu Þörungaverksmiðjunnar og Reykhólahrepps. Tilgangur miðstöðvarinnar er m.a. að stuðla að því að safna gögnum, aðferðum og upplýsingum í þekkingarbanka um afkomu og nýtingu ræktaðra og villtra sjávarþörunga við Ísland. Þá leggur Þörungamiðstöðin jafnframt áherslu á að starfa með rannsóknastofnunum og veita þeim og fyrirtækjum aðstöðu og þjónustu vegna þörungarannsókna auk þess að taka þátt í mennta- og fræðastarfi og vinna að ræktun þörunga.

 

Þörungaverksmiðjan hefur verið rekin í áratugi í Reykhólahreppi við Breiðafjörð og er stærsti vinnustaður sveitarfélagsins. Verksmiðjan slær og þurrkar hágæða klóþangs- og hrossaþaramjöl sem selt er um allan heim. Mjölið er vottað sem lífræn vara og hráefnis aflað á umhverfishæfan og sjálfbæran hátt í samræmi við veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

 

Samkvæmt yfirlýsingunni sem undirrituð var fyrir helgi lýsa báðir aðilar yfir áhuga á samtarfi í tengslum við uppbyggingu og starfsemi rannsókna- og þekkingarmiðstöðvar um þörunga á Reykhólum en tilgangur samstarfsins er m.a. að auka þekkingu á umhverfi þörunga með vöktun og rannsóknum ásamt því að skapa frekari verðmæti og atvinnu tengda þeim. 

 

Háskóli Íslands leggur mikla áherslu á að vinna með samfélagi og atvinnulífi og innan skólans er lagt kapp á að skapa gott umhverfi fyrir rannsóknir og hagnýtingu þeirra í þágu samfélags og atvinnulífs. Með viljayfirlýsingunni vill skólinn leggja sitt af mörkum til verkefna sem miða að því að afla nýrrar þekkingar sem tengist ræktun, vinnslu og hvers kyns nýtingu þörunga en innan skólans hafa farið fram ýmiss konar rannsóknir sem tengjast þessum sjávarlífverum og nýtingu þeirra. Samstarfið við Þörungamiðstöð Íslands fellur afar vel að stefnu skólans, HÍ26, sem kveður m.a. á um hlutverk HÍ í þágu þróunar samfélaga og þekkingarsköpunar en nánari útfærsla á samstarfinu verður staðfest síðar með formlegum samningi fyrir hvert verkefni.

 

Af vef Háskóla Íslands.

 

Á meðfylgjandi mynd eru fulltrúar beggja aðila:

 

Efri röð frá vinstri: Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs HÍ, Sigurður M. Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ, María Maack, ráðgjafi um sjálfbærni hjá Þörungaverksmiðjunni, Anna Þóra Hrólfsdóttir, doktorsnemi í matvælafræði, og Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra HÍ. Sitjandi eru Finnur Árnason, framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar hf., og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

 

 

 

28. mars 2022

Stóra upplestrarkeppnin

Upplestrarkeppni 7. bekkinga verður haldin í Reykhólaskóla á miðvikudaginn 30. mars kl. 17:00.

 Allir velkomnir.

 

 

Reykhólahreppur óskar eftir að ráða tvo sumarstarfmenn í 75 - 100% starf á Reykhólum við að sinna stuðningsþjónustu hjá 15 ára stúlku, í júní, júlí og ágúst. Vinnutími væri mánudaga til föstudaga frá 9:00-15:00.

 

Mjög skemmtilegt og krefjandi starf sem gæti hentað vel fyrir vinkonur eða par.

Möguleiki er á 100% starfi innan hreppsins og hjálp við að finna hentugt húsnæði ef starfsmenn óska þess.

 

Umsóknarfrestur er til og með 3. apríl.

 

Laun eru samkvæmt taxta Verk-Vest.

 

Umsóknir sendist Soffíu Guðmundsdóttur, félagsmálastjóra, Hafnarbraut 25, 510 Hólmavík. Upplýsingar eru veittar í síma 451-3510 og fyrirspurnir má einnig senda á felagsmalastjori@strandabyggd.is.

 

 

Framlengdur til 12. apríl frestur til að sækja um stöður aðalstefnuvotts og varastefnuvotts í Reykhólahreppi.


Sýslumaðurinn á Vestfjörðum auglýsir stöður aðalstefnuvotts og varastefnuvotts í Reykhólahreppi lausar til umsóknar.

 

Verkefni stefnuvotta er að birta stefnur, kvaðningar og aðrar tilkynningar í sveitarfélaginu, samanber 81. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 
Þar segir að til að annast þessar birtingar skipi sýslumaður a.m.k. einn mann í hverju sveitarfélagi í umdæmi sínu og annan til vara til að gegna þeim störfum í forföllum.
Greitt er fyrir starfann skv. gjaldskrá fyrir stefnuvotta sem ráðherra gefur út og er nú nr. 892/2020. 
Ekki fylgja starfinu önnur laun eða tekjur en þau sem þar eru ákvörðuð.

 

Leitað er að heiðarlegum og áreiðanlegum einstaklingi með góða framkomu, sem æskilegt er að hafi ökutæki til umráða. Stefnuvottur þarf að hafa náð 25 ára aldri og má ekki hafa hlotið refsidóm fram yfir fjögurra mánaða óskilorðsbundna fangelsisrefsingu. Stefnuvottur skal undirrita drengskaparheit um að hann muni rækja starfann af trúmennsku og samviskusemi.

 

Umsóknarfrestur er til 12. apríl nk. og berist umsóknir til Sýslumannsins á Vestfjörðum í netfangið jg@syslumenn.is. Öllum umsóknum verður svarað eftir að ráðið hefur verið í stöðuna/stöðurnar.

 

Nánari upplýsingar veitir sýslumaður, Jónas B. Guðmundsson, í síma 458 2400 eða með svari við erindum sem berast í netfangið jg@syslumenn.is

 

 

 

Smugan
Smugan
1 af 4

Það er ekki til einhlítur mælikvarði á hvað er lítill, meðal eða mikill snjór. Hann á sína vissu staði og yfirleitt gerir fólk sér litla rellu út af því, nema þegar snjórinn sest á veginn eða við húsdyr.

 

Vissu staðirnir á veginum eru náttúrlega smugan hjá Geiradalsánni, milli Hóla og Kambs, við Bæjarána, við Geitarána, við Skrautann á Klukkufelli og víðar raunar en á þessa staði safnast yfirleitt fyrst snjór. Ef til vill væri verðugt verkefni að gera snjókort af vegum.

 

Nokkur snjór er kominn á þessa staði nú. Vegna þess að vetrarvegir eru bæði við Smuguna og Bæjarána voru aðrir kaflar vegarins látnir ganga fyrir og ekkert mokað þar síðustu 2 daga amk. Því reikna vegfarendur ekki með og átta sig ekki á vetrarvegunum fyrr en of seint og fara sumir nokkuð langt inn í skaflana. Það veldur bæði óþægindum og töfum.

 

Sennilega þyrfti að merkja betur þegar vegurinn er ófær. Vegurinn í Smugunni var opnaður í dag.

 

 

Tilboð í gerð Vestfjarðavegar í Þorskafirði, Þórisstaðir - Hallsteinsnes, voru opnuð í dag, 4 tilboð bárust.

Lægsta boð átti Borgarverk ehf. í Borgarnesi, kr. 1.235.125.146, áætlaður verktakakostnaður Vegagerðar var kr. 1.430.986.434. 

 

Upplýsingar um útboðið og tilboðin eru hér.

Opnun tilboða 22. mars 2022. Nýbygging Vestfjarðavegar í Þorskafirði á um 10,4 km kafla og um 0,2 km kafla á Djúpadalsvegi. 
Helstu magntölur eru:

  • - Bergskering í vegstæði 262.000 m3
  • - Fyllingar úr skeringum 208.100 m3
  • - Fláafleygar úr skeringum 56.200 m3
  • - Grjótvörn 21.000 m3
  • - Ræsalögn 966 m
  • - Styrktarlag, efnisvinnsla 46.600 m3
  • - Styrktarlag, útlögn 43.200 m3
  • - Burðarlag, efnisvinnsla 14.700 m3
  • - Burðarlag, útlögn 18.300 m3
  • - Klæðing 78.800 m2
  • - Vegrið 2.840 m

Verkinu skal að fullu lokið 15. október 2023.

Bjóðandi

Tilboð kr.

Hlutfall

Frávik þús.kr.

Íslenskir aðalverktakar hf

1.755.189.396

122,7

520.064

Suðurverk hf., Kópavogi

1.478.970.000

103,4

243.845

Áætlaður verktakakostnaður

1.430.986.434

100,0

195.861

Norðurtak ehf. og Skútaberg ehf., Akureyri

1.243.150.500

86,9

8.025

Borgarverk ehf., Borgarnesi

1.235.125.146

86,3

0

 

 

 

 

Starfshópur um orkumál á Vestfjörðum ætlaði að halda íbúafund um orkumál á Hólmavík í dag kl. 18:00, en vegna veðurs og ófærðar verður Zoom fundur og hér er hlekkurinn á hann:  https://us02web.zoom.us/j/84519623640

 

Orkumál á Vestfjörðum njóta ákveðinnar sérstöðu og hafa gert um nokkurt skeið. Starfshópur um orkumál á Vestfjörðum, sem starfar í umboði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, fékk það verkefni að skoða orkumál í fjórðungnum og koma með tillögur til úrbóta. Var við vinnuna litið til stöðu mála í flutningskerfi raforku, dreifikerfi raforku og möguleikum til orkuvinnslu á svæðinu og hvernig það fellur að áherslum úr orkustefnu um orkuskipti og afhendingaröryggi á landsvísu.

 

Starfshópurinn hefur nú unnið drög að tillögum til úrbóta og vill ræða drögin við íbúa Vestfjarða áður en hann lýkur störfum.

 

Vegna veðurs er pitsadegi nemendafélagsins frestað til morguns, miðvikudags 23. mars.

21. mars 2022

Skólaþing 24. mars

Önnur tilraun til að halda Skólaþing Reykhólaskóla verður gerð fimmtudaginn 24. mars, kl. 13 - 15.

Ingólfur Birkir Eiríksson, mynd Kolfinna Ýr
Ingólfur Birkir Eiríksson, mynd Kolfinna Ýr
1 af 2

Eins og mörgum er kunnugt hefur skíðabakterían smitast suður yfir fjöll, frá Strandamönnum. Fólk hér í sveitinni, bæði börn og fullorðnir hafa tekið þátt í starfi skíðafélags Strandamanna un árabil. Það er eitt af því sem varð mögulegt með veginum yfir Þröskulda.

 

Nú hefur ungmennafélagið Afturelding keypt spora til að gera gönguskíðabrautir og er búið að leggja spor á Reykhólum, bæði í skógræktinni hans Tuma - á móti búðinni - og á Preststúninu, meðfram afleggjaranum að Mávavatni.

 

Þetta er frábært framtak og mikil ánægja með þetta hjá þeim sem hafa farið þarna á skíði. Er fólk hvatt til að nýta sér þessa góðu aðstöðu meðan veðurfar er þannig að það sé hægt.

Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30