Tenglar

Aðalfundur ungmennafélagsins Aftureldingar verður haldinn þriðjudaginn 19. apríl klukkan 20:00 í matsal Reykhólaskóla. 

 

Dagskrá:

Venjuleg aðalfundarstörf. 

 

Hvetjum sem flesta til að mæta!

 

Stjórn Aftureldingar

Reykhólahreppur óskar eftir að ráða flokkstjóra í Vinnuskóla Reykhólahrepps. Leitað er að öflugum einstaklingi sem á auðvelt með samskipti og hefur gaman af því að starfa með unglingum.

 

Helstu verkefni og ábyrgð: Flokkstjóri starfar undir stjórn yfirflokkstjóra. Hann stjórnar starfi vinnuskólahóps, kennir nemendum rétt vinnubrögð, vinnur með liðsheild og verkvit og er uppbyggileg og góð fyrirmynd.

 

Ráðningartímabil júní – ágúst 2022. Unnið er í tveimur lotum á tímabilinu. Fyrri lotan verður 1. júní - 30. júní og seinni lotan 8. ágúst.-19. ágúst. Ef umsækjandi óskar getur sveitarfélagið bent á önnur störf í júlí til umsóknar. 

 

Umsækjendur þurfa að hafa náð 20 ára aldri.

 

Umsókn um starfið ásamt sakavottorði berist á skrifstofu Reykhólahrepps fyrir 15. maí, eða í netfang johanna@reykholar.is

Nánari upplýsingar hjá tómstundafulltrúa í síma 6982559 eða á póstfangið johanna@reykholaskoli.is

 

Hrefna Jónsdóttir
Hrefna Jónsdóttir

Ég hef ákveðið að lýsa hér með yfir áhuga á setu í sveitastjórn Reykhólahrepps á næsta kjörtímabili.

 

Ég tel að þetta sveitarfélag bjóði upp á gífurlega möguleika í komandi framtíð og mér þætti mjög spennandi að taka þátt í þeirri vegferð.

Lengi hef ég fylgst með, tekið þátt í umræðum og skoðað málin en nú tel ég tímabært að leggja mitt af mörkum. 

 

Verkefnin framundan eru mörg og spennandi. Það sem ég held að þurfi að vera áhersluatriði m.a. er:

- Fjölgun leiguíbúða með fjölbreyttum aðferðum

- Leikskólalóðin

- Viðhald á fasteignum hreppsins m.a. grunnskólahúsnæði

- Að auka tækifæri einstaklinga til þess að koma hugmyndum sínum í framkvæmd

- Vinna að metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum 

- Nýta mannauðinn í samfélaginu eins vel og mögulegt er, það mikilvægasta er þó að sveitastjórn vinni vel saman með hagsmuni sveitarfélagsins í forgrunni.

 

Ég er alltaf til í umræður um málefni sveitarfélagsins svo það má endilega senda á mig línu ef vill.

 

Ég vona einnig að fleiri ákveði að rétta upp hönd og bjóða fram sína krafta!

 

Hrefna Jónsdóttir

 

Jóhanna Ösp Einarsdóttir
Jóhanna Ösp Einarsdóttir

Kæru sveitungar

Nú er það orðið ljóst að engir framboðslistar eru í gangi í Reykhólahreppi og ég mun gefa kost á mér aftur til að sitja í sveitarstjórn.

 

Kjörtímabilið sem er að líða hefur verið mjög lærdómsríkt fyrir mig og ég hef unnið að verkefnum samfélagsins að heilum hug. Auðvitað hafa ekki allar ákvarðanir verið auðveldar en ég hef tekið þær ákvarðanir út frá innri sannfæringu út frá því hvað ég tel best fyrir sveitarfélagið. Auðvitað eru ekki allir sammála um hvað er best hverju sinni en ég hef líka borið virðingu fyrir öðrum sjónarmiðum og skoðað allar hliðar.

 

Lærdómurinn sem ég tek með mér út úr kjörtímabilinu sem er að líða verður ekki kenndur á neinum öðrum vettvangi en að fá að starfa í þessu starfi. Síðastliðið ár hef ég fengið þann heiður að sinna formennsku stjórnar Fjórðungssambandsins og Vestfjarðastofu og hef ég virkilega lagt mig fram af heilhug að starfa í þágu fjórðungsins í heild og hefur það verið mikill heiður! 

 

Það eru ansi mörg verkefni sem eru að hefjast sem ég tel vera stór tækifæri fyrir Reykhólahrepp ef vel tekst til að vinna þau áfram. Þar má nefna vindmyllugarð, græna iðngarða, þörungamiðstöð Íslands og áframhaldandi uppbyggingu innviða.

 

Á nýju kjörtímabili myndi ég vilja fara í deiliskipulag á þorpinu í samvinnu við íbúa. Að skapa framtíðarsýn fyrir þorpið, hvar við viljum sjá þjónustu hlutann (eða miðbæ) hvernig við viljum sjá hafnarsvæðið, lóðir undir húsnæði og iðnaðarlóðir. Mikilvægt er að halda áfram í að vinna að því að ný atvinnustarfsemi geti sest hér að og fengið aðgang að orku og lóðum. Ég myndi líka vilja ýta undir og styðja við atvinnuþróun í dreifbýlinu.

 

Ég myndi vilja halda áfram að vinna að því að Reykhólahreppur leggi áherslu á að öll þjónusta við börn verði ódýr eða ókeypis. 

 

Við stöndum frammi fyrir mögulegum sameiningum sveitarfélögum og þá er það mitt eina markmið að nýtt sveitarfélag standi sterkara en Reykhólahreppur gerir núna, þjónustuaukning við íbúa og uppbyggingarmöguleikar, þá þarf fjárhagslegur hvati til sameiningar að vera góður. En þetta er málefni sem þarf að skoða mjög vel með íbúum. Reykhólahreppur er sveitarfélag sem ég er stolt af og að mínu mati góður staður fyrir fjölskyldufólk að búa á. 

 

Annars er erfitt að skipuleggja heilt kjörtímabil með loforðum þar sem starfið snýr að stórum hluta að því að grípa þá bolta sem sendir eru á mann og nýta þá til að búa til tækifæri. 


Ég er búin að eiga mjög gott samstarf við Ingimar, Karl og Emblu og þakka þeim kærlega fyrir samstarfið. Ekki er nú samstarfið við Árný og Ingu Birnu síðra og ég vona svo innilega að ég fái að njóta þess heiðurs að vinna með þeim áfram, ásamt því að fá að vinna með nýju fólki fá ný sjónarmið inn og vinna með duglegu áhugasömu fólki. 

 

Ég vil þakka kærlega fyrir traustið sem mér var sýnt á kjörtímabilinu og ef þið viljið ræða málin eitthvað frekar þá er velkomið að hafa samband. 

Jóhanna Ösp Einarsdóttir

 

Árný Huld Haraldsdóttir
Árný Huld Haraldsdóttir

Ég, Árný Huld Haraldsdóttir, vil gefa kost á mér til áframhaldandi setu í sveitarstjórn Reykhólahrepps.

Líðandi kjörtímabil hefur verið uppfullt af bæði spennandi og krefjandi verkefnum, sem ég hef lært mikið af og öðlast reynslu sem mun nýtast mér í hverju sem er.

Komi til þess að ég verði endurkjörin mun ég halda áfram að vinna af heilindum, fylgja eigin sannfæringu með hag sveitarfélagsins að leiðarljósi og takast á við þau verkefni sem að höndum ber.

 

Meðal verkefna sem ég vil fylgja eftir eru:
- að taka nýjan leikskólavöll í gagnið
- framtíðarsýn og endurbætur á Grettislaug
- vinna að fjölgun íbúða á Reykhólum svo hægt sé að auðga mannlíf
- halda áfram að sinna viðhaldi á eignum Reykhólahrepps
- greiða fyrir bættri nýtingu á orku sem fæst úr heita vatninu
- styðja við dreifbýlið og atvinnuþróun í sveitarfélaginu
- starfa við verkefni með nágrannasveitarfélögum á jafnréttisgrundvelli.

Þetta er náttúrulega ekki tæmandi list og öll verkefni sem Reykhólahreppur tekur sér fyrir hendur þarf að vinna af heilindum og virðingu.

Emblu Dögg, Ingimar, Karli og Ágústu Ýr vil ég þakka gott samstarf í sveitarstjórn. Öllum þeim sem ég hef setið með í nefndum og unnið með þetta kjörtímabil óska ég líka alls hins besta. Vonandi getur samstarf okkar Jóhönnu haldið áfram næsta kjörtímabil og Ingibjörg Birna samþykki að sitja áfram sem sveitarstjóri sveitarfélagsins.


Mín von er að fá að halda áfram að vera talsmaður íbúa Reykhólahrepps og njóti hugrekkis til að gera betur í dag en í gær.

Árný Huld Haraldsdóttir

Bakka

 

 

Í dag, 8. apríl kl. 12 á hádegi, rann út frestur til að skila inn framboðum til sveitarstjórnar, og einnig til að skila inn tilkynningum þeirra sem ekki gefa kost á setu í sveitarstjórn, (vilja láta hengja sig upp).

 

Í Reykhólahreppi var enginn framboðslisti lagður fram, sem þýðir að það verður persónukjör eins og undanfarnar kosningar.

 

3 sveitarstjórnarmenn skorast undan endurkjöri, það eru:

Embla Dögg Bachmann Jóhannsdóttir Reykhólum,

Ingimar Ingimarsson Reykhólum,

Karl Kristjánsson Kambi.

 

Ennfremur gefur Gústaf Jökull Ólafsson Reykhólum ekki kost á sér, en hann var búinn að sitja 3 kjörtímabil samfleytt fyrir næstsíðustu kosningar, og getur því skorast undan að taka kjöri jafn lengi.

 

 

  

Minnt er á að framboðsfrestur rennur út föstudaginn 8. apríl kl. 12 á hádegi, einnig þurfa þeir sem ætla að skorast löglega undan kjöri (láta hengja sig upp) að tilkynna það fyrir sama tíma.

 

Kjörstjórn verður á skrifstofu Reykhólahrepps Maríutröð 5, milli kl. 11 og 12 þann 8. apríl og tekur á móti ofangreindum gögnum ef þau berast.

 

Á vefnum kosning.is má finna upplýsingar um kosningar og framkvæmd þeirra.

 

Kjörstjórn Reykhólahrepps;

Steinunn Ó. Rasmus formaður

Sandra Rún Björnsdóttir

Sveinn Ragnarsson

 

 

Frestur til að skila framboðslistum til yfirkjörstjórna, vegna sveitarstjórnarkosninga 2022, rennur út kl. 12:00 á hádegi

þann 8. apríl.


Allar upplýsingar má finna um þetta á vef Stjórnarráðs Íslands.

1. apríl 2022

Flöskuskeyti í Gilsfirði

1 af 3

Síðustjóri var í dag að skoða lífríkið við Gilsfjarðarbrúna, en þar voru selir, toppendur, mávar og æðarfugl, svo eitthvað sé nefnt.

 

Spölkorn fyrir sunnan brúna glitti í plastflösku milli steina í garðinum og þegar betur var að gáð var pappírsrúlla í henni. Þó að finnandanum þætti nú frekar ólíklegt að þarna væri alvöru flöskuskeyti, þá vandaði hann sig við að ná bréfinu upp úr flöskunni svo það rifnaði ekki.

 

En viti menn, þarna var skeyti frá 5 ára stúlku á Akureyri. Skriftin á skeytinu er orðin óskýr með köflum, en ef rétt er lesið þá er skeytið sent af stað 4. júlí 2006. Sendandinn er þá sennilega 21 árs núna. Þó að sendandinn hafi átt heima á Akureyri, þá kemur fram í skeytinu að það var sent af stað við Gilsfjarðarbrúna og hefur því líklega ekki ekki flotið lengra en nokkur hundruð metra á þessum 16 árum.

 

Bergrós Vilbergsdóttir, Alexander Óðinn Arnarsson, Vigdís Lilja Hjaltadóttir, Smári Gilsfjörð Bjarkason, Hrafnhildur Sara Baldvinsdóttir, Ásborg Styrmisdóttir, Víkingur Þór Eggertsson og Matas Zalneravicius
Bergrós Vilbergsdóttir, Alexander Óðinn Arnarsson, Vigdís Lilja Hjaltadóttir, Smári Gilsfjörð Bjarkason, Hrafnhildur Sara Baldvinsdóttir, Ásborg Styrmisdóttir, Víkingur Þór Eggertsson og Matas Zalneravicius
1 af 4

Upplestrarkeppni 7. bekkinga í Reykhóla- og Strandaskólunum fór fram miðvikudaginn 30. mars á Héraðsbókasafni Reykhólahrepps í Reykhólaskóla.

Keppnin er haldin til skiptis á Reykhólum, Hólmavík og Drangsnesi. Í ár voru alls átta keppendur, sjö frá Reykhólum og einn frá Hólmavík.

 

Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn hafa séð um Stóru upplestrarkeppnina undanfarin 25 ár en nú hafa sveitarfélögin í landinu tekið við umsjón keppninnar. Keppnin er haldin árlega og eru þátttakendur í 7. bekk sem keppa sín á milli.

 

Í keppninni í ár voru lesnar sögur eftir Þórarinn Eldjárn og ljóð eftir Jónas Hallgrímsson og að lokum lásu þátttakendur ljóð að eigin vali.

 

Í dómnefnd voru Ingibjörg Einarsdóttir formaður Radda, Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri Reykhólahrepps og Ingvar Samúelsson. Ingibjörg Einarsdóttir var formaður dómnefndar en hún er ein af frumkvöðlum Stóru upplestrarkeppninnar.

Samtals tóku átta keppendur þátt þetta árið, sjö frá Reykhólum og einn frá Hólmavík.

Þrír nemendur úr Reykhólaskóla komust í verðlaunasæti og eru eftirfarandi:

 

1. sæti, Ásborg Styrmisdóttir úr Reykhólaskóla 

2. sæti, Vigdís Lilja Hjaltadóttir úr Reykhólaskóla

3. sæti, Alexander Óðinn Arnarsson úr Reykhólaskóla

 

Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30