Eftirminnilegur afmælisdagur
Núna í byrjun mánaðarins, þann 1. átti Baldvin Smárason bóndi á Bakka fertugsafmæli. Vitandi að allt er fertugum fært ákvað hann að verja deginum í að plægja spildu innar í dalnum, töluverðan spöl frá bænum.
Það byrjaði nú ekki sérlega vel, þegar hann var að fara til að dæla olíu á traktorinn kemur hann auga á dauða kind sem hann átti og var dánarorsök ókunn.
Þegar Baldvin var um það bil hálfnaður að plægja tekur hann eftir að það rýkur undan vélarhlífinni á traktornum og hann snarast út til að athuga hverju þetta sæti. Þá er farið að loga undir húsinu og eykst hratt. Þegar hann ætlar að hringja í neyðarlínuna áttar hann sig á að síminn er inni í vélinni og eldurinn hafði magnast það mikið að hann ákvað að reyna ekki að ná í símann.
Hann hljóp af stað heim og var ekki kominn marga tugi metra þegar húsið á traktornum var orðið alelda.
Þegar slökkviliðið kom var mest allt brunnið sem brunnið gat og gekk greiðlega að slökkva, eldur hafði borist í sinu en nógu mikill raki var í jörðinni svo auðvelt var að ráða við það.
Sem eðlilegt var þótti Baldvin þetta ekki ákjósanlegur endir á afmælisdeginum en bar sig samt vel.
Því má svo bæta við þessa sögu að Árný Huld, kona Baldvins, hafði án hans vitundar undirbúið veislu sem haldin var í íþróttasalnum á Reykhólum helgina á eftir og boðið þangað vinum og fjölskyldum.
Þegar átti að plata hann undir einhverju yfirskini út að Reykhólum í veisluna, þá finnst ekki Baldvin.. (þið munið að síminn hans brann í traktornum) en hann hafði þá bara skotist yfir að Brekku, grunlaus um að nokkuð merkilegt stæði til. Hann varð svo bæði hissa og glaður þegar hann hitti veislugestina og líka hissa á að krakkarnir þeirra skyldu geta haldið þessu leyndu.
Báta og hlunnindasýningin opnuð í dag
Búið er að opna Báta og hlunnindasýninguna á Reykhólum.
Á sýningunni er yfirlit um hlunnindanytjar við Breiðafjörð og í Breiðafjarðareyjum. Einnig er fróðleikur um dýra- og fuglalíf.
Á bátasafninu eru einkum súðbyrðingar með breiðfirsku lagi, einnig er þar nokkuð stórt safn gamalla bátavéla, sumar sjaldgæfar.
Bátasafnið hefur jafnframt verið verkstæði þar sem unnið hefur verið að bátasmíði og viðgerðum, þar hafa líka verið haldin námskeið í bátaviðgerðum.
Á fimmtudögum og föstudögum í sumar verður Hafliði Aðalsteinsson bátasmiður þar við vinnu og gefst gestum sýningarinnar kostur á að fylgjast með bátaviðgerðum. Þannig er þetta að nokkru leyti lifandi safn.
Það er vel ómaksins vert að staldra við og skoða Báta- og hlunnindasýninguna.
Sýningin er opin alla daga vikunnar fram í miðjan ágúst, milli kl. 11 og 18.
Sundlaugin opin um hvítasunnuna
Ný sveitarstjórn heilsar íbúum Reykhólahrepps
Við þökkum fyrir traustið sem okkur var sýnt í kosningunum.
Við erum mjög spennt fyrir komandi samstarfi og förum jákvæð og bjartsýn inn í kjörtímabilið. Við teljum að tækifærin til uppbyggingar séu gríðarlega mörg og hlökkum til að reyna að grípa þessi tækifæri fyrir samfélagið okkar.
Jafnframt erum við mjög ánægð að Ingibjörg Birna var tilbúin til áframhaldandi samstarfs. Ingibjörg Birna hefur sinnt starfi sínu sem sveitarstjóri af heilindum og metnaði og hefur ávallt hagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljósi. Það er því mikið happ fyrir sveitarfélagið að hún muni áfram sinna þessu starfi.
Sveitarstjórn Reykhólahrepps
Starfsmaður óskast í félagslega heimaþjónustu á Reykhólum.
Umsóknarfrestur er til og með 15. júní 2022.
Laun eru samkvæmt taxta Verk-Vest.
Umsóknir sendist Soffíu Guðmundsdóttur, félagsmálastjóra, Hafnarbraut 25, 510 Hólmavík.
Upplýsingar eru veittar í síma 451-3510 og fyrirspurnir og umsóknir má einnig senda á felagsmalastjori@strandabyggd.is
Bráðvantar sundlaugarverði við Grettislaug í sumar
Við Grettislaug á Reykhólum er auglýst eftir sundlaugarvörðum til starfa sumarið 2022. Um er að ræða tímabilið 13. júní - 14. ágúst.
Starfshlutfall 70 – 100%. Um er að ræða vaktavinnu, vinnutími frá kl. 13 – 21 og er unnið aðra hverja helgi.
Starfið felst í öryggisgæslu, afgreiðslu og þjónustu við viðskiptavini, baðvörslu, þrifum og eftirliti.
Lágmarksaldur umsækjenda er 18 ára.
Reynsla af þjónustustarfi er kostur
Góð íslenskukunnátta skilyrði
Hæfni í mannlegum samskiptum.
Góðir skipulagshæfileikar.
Grettislaug sendir allt starfsfólk sitt á námskeið sundlaugarvarða.
Umsóknir ásamt ferilskrá skulu sendar á skrifstofu Reykhólahrepps, Maríutröð 5a, eða á netfangið skrifstofa@reykholar.is.
Upplýsingar um starfið gefur forstöðumaður Grettislaugar í síma 434-7738 eða sveitarstjóri í síma 4303200.
Brunavarnaáætlun 2022 - 2026 komin á netið
Brunavarnaáætlun 2022 - 2026 fyrir Brunavarnir Dala, Reykhóla og Stranda er komin á netið og má sjá hana hér.
Vantar gangstéttarhellur
Ræstingar - hlutastarf
Erum að leita að góðri manneskju í ræstingar í Þörungaverksmiðjunni sem fyrst.
Um er að ræða efri hæð sem eru skrifstofur, kaffistofa, salerni og neðri hæð sem er búningsaðstaða, vaktherbergi, sýnatökuherbergi og salerni.
Um er að ræða 4-5 klst. vinnu 2x í viku.
Bæði kemur til greina að vinna þetta í verktöku eða á launaskrá.
Áhugasamir sendið email á heimir@thorverk.is eða hringja í síma 8579228