Tenglar

Kosningar til sveitarstjórnar fara fram laugardaginn 14. maí 2022.  Kjósa ber fimm aðalmenn og fimm til vara.

 

Kjördeild verður á skrifstofu Reykhólahrepps, Maríutröð 5a.

 

Kjörfundur hefst kl. 10:00  og lýkur kl. 18:00.


Kjörskrá hefur verið gefin út af Þjóðskrá Íslands og liggur hún frammi á skrifstofu Reykhólahrepps.

 

Kosningar í Reykhólahreppi eru óbundnar kosningar þar sem kosning er ekki bundin við framboð.  Allir kjósendur eru í kjöri nema þeir sem löglega eru undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrirfram skorast undan því.

 

Þrír fráfarandi sveitarstjórnarmenn  hafa skorast undan endurkjöri, þau eru:

 

Embla Dögg Bachmann Jóhannsdóttir,   

Ingimar Ingimarsson, 

 Karl Kristjánsson.   

Einnig hefur Gústaf Jökull Ólafsson skorast löglega undan kjöri.

 

Kjörstjórn gerir ráð fyrir að talning atkvæða fari fram strax og kjörfundi lýkur og gengið hefur verið  frá gögnum til talningar.

 

Áhersla er lögð á að nöfn manna séu greinilega skrifuð á atkvæðaseðilinn, en atkvæði skal ekki metið ógilt þótt sleppt sé fornafni eða eftirnafni ef greinilegt er, eftir sem áður, við hvern er átt.

 

Eins og fram kemur hér að ofan skal kjósa fimm aðalmenn og fimm varamenn.

 

Kjósendum er bent á að gott er ef þeir hafa ákveðið fyrirfram hverja þeir ætla að kjósa, að mæta með tilbúinn nafnalista.  Slíkt flýtir fyrir kosningu.

 

Kjósendur eru minntir á persónuskilríki.

 

Reykhólum, 19. apríl 2022

 

 kjörstjórn Reykhólahrepps,

Steinunn Ólafía Rasmus formaður

Sandra Rún Björnsdóttir

Sveinn Ragnarsson

 

Félagsþjónusta Stranda og Reykhólahrepps auglýsir eftir ráðgjafa í 40% framtíðarstarf frá 1. Júní 2022.  Næsti yfirmaður er félagsmálastjóri.

 

Meginverkefni:

Að vinna að stofnun atvinnuúrræðis fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu á félagsþjónustusvæðinu.

Ráðgjöf í málefnum fatlaðs fólks.

Ráðgjöf í málefnum aldraðra.

Yfirumsjón með málefnum flóttamanna.

 

Menntunar og hæfniskröfur

Háskólamenntun sem nýtist í starfi  svo sem iðjuþjálfun, félagsráðgjöf eða þroskaþjálfun.

Reynsla af sambærilegu starfi er kostur.

Góð enskukunnátta æskileg.

Gott vald á íslenskri tungu.

Frumkvæði, sjálfstæði og nákvæmni í vinnubrögðum.

Framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum.

Góð alhliða tölvukunnátta.

Hreint sakavottorð skilyrði í samræmi við lög og reglur félagsþjónustunnar.

 

Umsóknarfrestur er til og með 23. maí 2022

Laun eru samkvæmt kjarasamningi samband íslenskra sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélags.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Soffía Guðmundsdóttir, félagsmálastjóri Félagsþjónustu Stranda og Reykhólahrepps í síma 451-3510 eða felagsmalastjori@strandabyggd.is.

Umsækjendur eru beðnir um að skila inn umsóknum á tölvupóstfangið felagsmalastjori@strandabyggd.is. Með umsókn þarf að fylgja ferilskrá um fyrri störf og menntun ásamt kynningarbréfi þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningi fyrir hæfni í starfið.

 

 

12. maí 2022

Réttað í maí

mynd, Jóhannes Haraldsson
mynd, Jóhannes Haraldsson
1 af 2

Í gær voru þangsláttumenn, þeir Jóhannes Haraldsson og Björgvin Matthías Hallgrímsson, að dóla um veginn í Kollafirðinum og ergja sig á norðaustanáttinni sem gerir þeim ómögulegt að athafna sig við sláttinn. Þá komu þeir auga á fjárhóp í túninu í Múla, 6 fullorðnar kindur og 2 lömb. Þeim fannst fremur ólíklegt að bændur væru búnir að sleppa lambfé í þessu tíðarfari, svo þeir kölluðu eftir aðstoð til að handsama féð.

 

Eftir nokkurn eltingaleik náðist að reka kindurnar inn í skilaréttina á Eyri, fullorðna féð hálfu ári of seint, en lömbin missiri fyrr en vant er.

 

Féð reyndist vera frá Fremri Gufudal og Skálanesi, þrílemba með dætur og 2 hrútar. Kindurnar eru í góðu ásigkomulagi þrátt fyrir að hafa gengið úti frekar leiðinlegan vetur.

 

Stafræn umbreyting snýst um umbætur á þjónustu og vinnulagi með tækninýjungum. Þetta er mjög stórt breytingaverkefni bæði fyrir hið opinbera sem og einkageirann en ávinningurinn er að einfalda líf íbúa og bæta skilvirkni og rekstur. Umbætur með hagnýtingu tækninnar auðvelda íbúum að sækja þjónustu, fækka handtökum starfsmanna, auka gagnsæi og rekjanleika og gefa færi á betri nýtingu upplýsinga og gagna.   

 

Samband íslenskra sveitarfélaga réð breytingastjóra um stafræna umbreytingu í lok árs 2019 til að vinna að stafrænu samstarfi sveitarfélaga í samræmi við stefnumörkun landsþings sambandsins fyrir það kjörtímabil sem nú er að renna sitt skeið á enda. Breytingastjóri byrjaði á því að setja á laggirnar faghóp um stafræna umbreytingu sem er skipaður stafrænum sérfræðingum sveitarfélaga. Í kjölfarið samþykkti stjórn sambandsins að skipa stafrænt ráð sveitarfélaga með fulltrúum frá öllum landshlutasamtökum sveitarfélaga og Reykjavíkurborg til að vera tengiliður við sveitarfélögin og styðja við uppbyggingu stafræns samstarfs þeirra.  Í júní 2021 var svo stofnað stafrænt umbreytingateymi sambandsins með þremur sérfræðingum til að vinna að framkvæmd stafrænna samstarfsverkefna sveitarfélaga. Stjórn sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkti jafnframt að sambandið yrði aðili að stefnu um stafræna þjónustu hins opinbera 

 

Vefsíðan https://stafraen.sveitarfelog.is/ er stuðnings- og upplýsingasiða um stafrænt samstarf sveitarfélaga. Þar er hægt að  sjá hvaða samstarfsverkefni sveitarfélaga sem eru í gangi. Þar er einnig verkfærakista fyrir stafræna umbreytingu sveitarfélaga með sniðmáti og leiðbeiningum,  t.d. um áhættugreiningar. Til viðbótar hafa verið settar inn á síðuna tæknilausnir sem sveitarfélögin geta sjálf sett upp á sínum síðum á einfaldan hátt, svo sem reiknivél fyrir leikskólagjöld, sorphirðudagatal og fl. Auk þess eru þar reynslusögur sveitarfélaga til að yfirfæra stafræna reynslu á milli þeirra. Vefsíðan er einnig fréttaveita um það sem er að gerast í stafrænni umbreytingu sveitarfélaga. Jafnframt er gefið út mánaðarlega fréttabréf  sem hægt er að gerast áskrifandi að eða fylgja Facebook síðunni Stafræn sveitarfélög .  

 

Framsýnir leiðtogar sveitarfélaga um allan heim leggja nú áherslu á að kveðja áratuga gamlar hugmyndir um verkferla og þjónustu og horfa í meira mæli til nýrra tíma þar sem þjónustan við íbúa og fyrirtæki er að miklu leyti stafræn, starfsfólk vinnur í verkefnamiðuðu umhverfi, gögn eru hagnýtt til að bæta ákvörðunartöku og sjálfbærni sett í forgang.  

 

Stafræn umbreyting er komin til að vera. Sveitarfélög þurfa að móta stefnu í þessum málum og fylgja þeirri þróun sem á sér stað allt í kringum okkur. Upplýsingatæknikerfi sveitarfélaga þurfa að styðja við aukinn hraða í þróun, sjálfvirkni og gagnavinnslu og huga þarf að samvirkni innri og ytri kerfa.

 

  

 

Sveitarstjórnarkosningar 2022

- staða, kosningabarátta og málefni –

 

Hádegisfundur á vegum Félags stjórnmálafræðinga og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála um sveitastjórnarkosningarnar. 

 

Fundurinn verður haldinn þann 6.maí kl. 12:00-13:00, í Odda 101 í Háskóla Íslands.

 

Framundan eru sveitastjórnarkosningar og af því tilefni munu þau Eva Marín Hlynsdóttir prófessor við HÍ og Grétar Þór Eyþórsson prófessor við HA fara yfir stöðuna í kosningabaráttunni, stöðu sveitarstjórnarfólks og upplifun þeirra á starfumhverfi sínu ásamt því að fjalla um mikilvægi kosninganna og sveitastjórnarmála.

 

Fundurinn er opinn öllum, aðgangur er ókeypis og mun fara fram á íslensku.

Upplýsingar um streymi verða aðgengilegar á Facebookviðburði fundarins

 

Verkefnastjóri og starfsfólk óskast í vaktavinnu í skammtímavistun hjá 15 ára stúlku á Reykhólum. Mjög skemmtilegt og krefjandi starf í fallegu og rólegu umhverfi. Umsóknarfrestur er til og með 27. maí 2022.

 

Einnig vantar tvo sumarstarfsmenn í liðveislu með sömu stúlku í júní, júlí og ágúst. Sá möguleiki er fyrir hendi að sumarstarfsmennirnir verði áfram á Reykhólum eftir sumarið og vinni á skamtímavistuninni í framhaldi. Umsækjendur geta fengið hjálp við að finna hentugt húsnæði á staðnum, sé þess óskað.

 

Umsóknir ásamt fylgigögnum sendist Soffíu Guðmundsdóttur, félagsmálastjóra, Hafnarbraut 25, 510 Hólmavík.

 

Upplýsingar eru veittar í síma 451-3510 og fyrirspurnir og umsóknir má einnig senda á felagsmalastjori@strandabyggd.is.

 

 

Til kattaeigenda á Reykhólum.

 

Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti vorið 2020 bókun þess efnis að lausaganga katta væri bönnuð í þéttbýlinu Reykhólum yfir varp- og uppeldistíma fugla frá 1. apríl  - 1. september ár hvert.

 

Sveitarstjórn telur brýnt að vernda fuglalíf á Reykhólum sem hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og fuglaskoðara.

 

Athygli er vakin á grein eftir Magnús Ólafs Hansson hér undir Sjónarmið.

 

1 af 5

Nú er hafinn undirbúningur endurbyggingar stálþilsbryggjunnar á Reykhólum, sem hefst í sumar. Síðasti farmurinn af stáli í þilið kom í dag og meira efni er væntanlegt á næstunni. Einhverjar tafir hafa orðið á afhendingu efnis að utan, eins og margir hafa lent í.

 

Rob Kamsma verkfræðingur hjá Siglingasviði Vegagerðarinnar sagði að þetta væri með flóknari verkefnum af þessu tagi. Ástæða þess er að bryggjan verður í notkun allan tímann sem framkvæmdir standa yfir og verktakarnir þurfa sitt athafnapláss. Þörungaverksmiðjan landar öllu sínu hráefni þar og það er flesta daga, það þarf að skipa út í mjölskip og Vegagerðin mun skipa þarna upp efni til búargerðar í Þorskafirði, auk þess sem þangskurðarmenn þurfa að athafna sig í höfninni annað slagið.

 

Þetta er framkvæmd upp á liðlega 300 millj. og verður lokið næsta sumar. Verktakar eru Hagtak hf. sem sér um að undirbúa botninn fyrir stálþilið, og Borgarverk ehf. rekur niður stálþilið, en þessi fyrirtæki hafa yfir að ráða sérhæfðum tækjakosti til þessara verka.

 

Bryggjan verður stækkuð jafnframt, lengd í N-A. svo að Grettir kemur til með að fá betra skjól inni í höfninni, og ytri viðlegukanturinn verður lengdur í S-V. þannig að stærri flutningaskip geta lagst að bryggju án vandræða.

 

Vésteinn Tryggvason, mynd Skessuhorn
Vésteinn Tryggvason, mynd Skessuhorn

Í Skessuhorni er þáttur sem kallast Dagur í lífi... síðast var forvitnast um dag í lífi Vésteins Tryggvasonar.

 

Nafn: Vésteinn Tryggvason.

 

Fjölskylduhagir/búseta: Einhleypur og barnlaus.

 

Starfsheiti/fyrirtæki: Öryggis- og gæðastjóri hjá Þörungaverksmiðjunni.

 

Áhugamál: Ferðalög, matargerð og tónlist.

 

Dagurinn: Þriðjudagurinn 12. apríl 2022.

 

Klukkan hvað vaknaðirðu og hvað var það fyrsta sem þú gerðir? Vaknaði klukkan 6:50 og slökkti á podcastinu sem var búið að vera í spilun alla nóttina.

 

Hvað borðaðirðu í morgunmat? Borða vanalega ekki morgunmat en stalst samt í litla sneið af gulrótarköku þegar ég var kominn í vinnuna.

 

Hvenær fórstu til vinnu og hvernig? Keyrði til vinnu klukkan 7:20.

 

Fyrstu verk í vinnunni? Halda morgunfund með starfsfólki og skoða tölvupóstinn.

 

Hvað varstu að gera klukkan 10? Fylgjast með löndun úr skipinu okkar Gretti.

 

Hvað gerðirðu í hádeginu? Fór út á hráefnisplan og tíndi ferskan krækling úr þarahrúgunni.

 

Hvað varstu að gera klukkan 14? Vinna uppi á skrifstofu við skýrslugerð og fleira.

 

Hvenær hætt og það síðasta sem þú gerðir í vinnunni? Rétt fyrir fimm tók ég einn hring niðri í verksmiðju og lét mig svo hverfa.


Hvað gerðirðu eftir vinnu? Fór í sund. Fer alltaf í sund eftir vinnu þá daga sem er opið í lauginni. Er vanalega fyrstur ofan í og næ þannig nokkrum mínútum í friði og ró, fljótandi eins og rekaviður í djúpu lauginni.

 

Hvað var í kvöldmat og hver eldaði? Ég eldaði mér kræklingapasta með kræklingnum sem ég tíndi í vinnunni.

 

Hvernig var kvöldið? Rólegt og fallegt eins og flest kvöld í sveitinni.

 

Hvenær fórstu að sofa? Leið út af upp úr klukkan 11.

 

Hvað var það síðasta sem þú gerðir áður en þú fórst að hátta? Stillti vekjaraklukkuna á hæfilegan tíma.

 

Hvað stendur upp úr eftir daginn? Hvað það var fallegt veður og hvað ég gat verið mikið úti í sólinni.

 

 

2. maí 2022

Hjólað í vinnuna 2022

Nú styttist í að vinnustaðakeppnin Hjólað í vinnuna 2022 hefjist í tuttugasta sinn en að þessu sinni fer keppnin fram frá 4. - 24. maí. Opnað var fyrir skráningu þann 20. apríl og við hvetjum alla til að skrá sig strax til leiksHægt er að skrá sig allan tímann á meðan keppni stendur yfir eða fram til 24. maí. Hjólað í vinnuna er fyrir marga vorboðinn ljúfi og ávalt mikilvægat að huga vel að heilsunni og sinni daglegu hreyfingu. Fyrirtæki og stofnanir eru nú hvött til drífa í því að skrá vinnustaðinn til leiks og hvetja þannig allt starfsfólk til að vera með. Nauðsynlegt er fyrir vinnustaði landsins að huga vel að starfsandanum og er verkefnið góð leið til þess að hressa upp á stemninguna og þjappa hópnum saman.

 

Markmið verkefnisins er að huga að daglegri hreyfingu ásamt því að vekja athygli á virkum ferðamáta og eru hjólreiðar bæði virkur og umhverfisvænn ferðamáti. Hjólreiðar eru frábær útivist, hreyfing og líkamsrækt. Með því að taka þátt í þessu verkefni er ekki einungis verið að bæta skemmtilegri hreyfingu inn í sitt daglega líf, heldur lækkar maður kolefnissporin í leiðinni og sparar peninga sem færu annars í eldsneyti. Það er semsagt ENGIN ástæða til að taka ekki þátt! Nú er um að gera að drífa í að skrá sig til leiks á heimasíðu Hjólað í vinnuna


Íþrótta- og Ólympíusamband Ísland hvetur landsmenn til að hreyfa sig daglega og ekki síst taka þátt í þessu skemmtilega verkefni sem Hjólað í vinnuna er.

 

Við óskum hér með eftir ykkar liðsinni við að hvetja aðila innan þíns sambands til þátttöku í verkefninu þetta árið. Við hvetjum ykkur til að segja frá verkefninu á ykkar heimasíðum og samfélagsmiðlum og í viðhengi eru myndir sem má nota að vild. Í gegnum árin hefur myndast gríðarlega góð stemmning á vinnustöðum meðan á átakinu stendur. Von okkar er sú að svo verði í ár líka.


Hjólakveðja,
Almenningsíþróttasvið Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Praktískar upplýsingar:
Keppt er í átta flokkum um flesta þátttökudaga hlutfallslega miðað við heildarfjölda starfsmanna á vinnustöðum og í liðakeppni um flesta kílómetra.
Aðalatriðið er að fá sem flesta með sem oftast, til að hjóla, ganga, taka strætó, nota línuskauta eða annan virkan ferðamáta.

Að skrá sig til leiks:


1. Farið er inná vef Hjólað í vinnuna,
2. Smellt er á Innskráning efst í hægra horninu
3. Stofnaðu þinn eigin aðgang með því að skrá þig inn með Facebook eða búðu þér til notendanafn og lykilorð.
4. Velja má á milli þess að stofna vinnustað (þarf að gera ef vinnustaðurinn finnst ekki í fellilista) eða stofna/ganga í lið (þá er búið að stofna vinnustaðinn).
5. Skráningu lokið

Hægt er að nálgast ítarlegar skráningarleiðbeiningar inná vef Hjólað í vinnuna 

Nánari upplýsingar um Hjólað í vinnuna gefur Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ í síma: 514-4000 eða á netfangið hjoladivinnun@isi.is.

 

Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30