Sumarnámskeiðin að hefjast
Kæru foreldrar 6-12 ára barna!
Nú eru sumarnámskeiðin að hefjast og verður boðið upp á fjölbreytt starf með ævintýraleiðöngrum, vettvangsferðum, fjöruferðum, fuglaskoðunarleiðöngrum, heimsóknum, hestamennsku, útiveru og íþróttum.
Samstarfsaðilar sveitarfélagsins í sumarnámskeiðum er ungmennafélagið Afturelding og verður fjölbreytt íþróttastarf samhliða. Þjálfari í fótbolta og frjálsum íþróttum er Dísa Ragnheiður Magnúsdóttir.
Þær íþróttir sem verða í boði þetta sumarið eru:
• Frjálsar íþróttir
• Fótbolta æfingar
• Fimleikaæfingar
Ásamt íþróttaæfingum verðum við með vináttu og leiðtogaþjálfun auk vettvangsferða sem áður eru nefndar.
Námskeiðin verða á mánudögum, þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum frá 7. - 23. júní og svo aftur þriðjudags til fimmtudags 16.-18. ágúst.
• Móttaka barna verður frá 9:00-9:30
• Dagskrá hefst 9:30
• Hádegismatur 11:45
Dagskrá lýkur kl. 15:00
Nánari dagskrá verður auglýst þegar skráning liggur fyrir.
Boðið verður upp á akstur fyrir börnin í sveitunum bæði í sumarnámskeiðin og aðra þjónustu sveitarfélagsins fyrir börn, auk þess sem vinnuskólinn verður sniðinn að akstrinum.
Verð á námskeiðið með íþróttaæfingum, er 1.500 krónur dagurinn en 17.000 ef skráð er á allt tímabilið. Við minnum á tómstundastyrk sveitarfélagsins.
Hægt verður að kaupa mat fyrir börnin hjá mötuneyti Reykhólahrepps skv. verðskrá.
Börn utan sveitarfélags eru líka velkomin á sumarnámskeið Reykhólahrepps, en hafa þarf í huga að börn sem þurfa aukinn stuðning inn í skólastarf þurfa líka aukinn stuðning í sumarstarf. Útfærslur yrðu unnar í samvinnu við foreldra/forráðamenn og lögheimilissveitarfélag.
Skráning á námskeiðin, í akstur og í mötuneyti er hjá Jóhönnu í netfangi johanna@reykholar.is en einnig má hafa samband á Facebook eða í síma 6982559.
Jóhanna, Sjöfn og Dísa
Síðasti fundurinn
Þann 12. maí var síðasti reglulegi fundur fráfarandi sveitarstjórnar. Við það tækifæri var meðfylgjandi mynd tekin og er hún dæmigerð fyrir fundahöld síðari helming kjörtímabilsins, en þá urðu fjarfundir algengt fundarform.
Í fundargerð má sjá að nokkur stór mál á okkar mælikvarða voru afgreidd, t.d. verksamningur um endurbætur á Reykhólahöfn, yfirtaka Bríetar leigufélags á íbúðum við Hólatröð, samráðsáætlum um frágang vegna Vestfjarðavegar, brunavarnaráætlun og fleira má telja.
Að sitja í sveitarstjórn í litlu samfélagi eins og Reykhólahreppi er oft og tíðum ekki auðvelt, því ákvarðanir sem þarf að taka snerta stundum vini og fjölskyldu sveitarstjórnarfólks. Fráfarandi sveitarstjórn hefur staðið sig með sóma og unnið að krefjandi verkefnum af heilindum.
Á myndinni eru f.v. Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri, Jóhanna Ösp Einarsdóttir, Ingimar Ingimarsson, Karl Kristjánsson á teams, Árný Huld Haraldsdóttir oddviti og Embla Dögg B. Jóhannsdóttir.
Lausaganga katta
Minnt hefur verið á að kattaeigendur eiga að passa kettina sérstaklega á varptíma fugla.
Þessu til áréttingar hefur Magnús Ólafs Hansson skrifað grein sem er birt hér undir sjónarmið.
Lausar stöður við Reykhólaskóla
Við Reykhólaskóla eru lausar eftirtaldar stöður; skólastjóra, tónlistarkennara og leikskólakennara.
Auglýsingar með starfslýsingum eru undir Laus störf.
Æskilegt er að leikskólakennari geti hafið störf sem fyrst, umsóknarfrestur um stöður skólastjóra og tónlistarkennara er til og með 31. maí 2022.
Lífsglöð og skemmtileg
Íþróttamaður vikunnar er nýlegur liður hjá Skessuhorni. Þar eru lagðar tíu spurningar fyrir fólk sem stundar alls konar íþróttir, á öllum aldri á Vesturlandi. Íþróttamaður vikunnar að þessu sinni er hestamanneskjan og gönguskíðastúlkan Þórgunnur Ríta frá Reykhólum.
Nafn: Þórgunnur Ríta Gústafsdóttir.
Fjölskylduhagir? Foreldar mínir eru Gústaf Jökull Ólafsson og Herdís Erna Matthíasdóttir. Systkini mín eru Olga Þórunn, Matthías Óli og Sandra Rún.
Hver eru þín helstu áhugamál? Fara á skíði, í fótbolta og á hestbak.
Hvernig er venjulegur dagur hjá þér um þessar mundir? Vakna, fara í skólann, fara á æfingar og vera með vinunum.
Hverjir eru þínir helstu kostir og gallar? Mínir helstu kostir eru að ég er lífsglöð og skemmtileg og minn helsti galli hvað ég er óheppin.
Hversu oft æfir þú í viku? Á veturna fimm sinnum og sumrin tvisvar til þrisvar.
Hver er þín fyrirmynd í íþróttum? Snorri Einarsson besti gönguskíða maður okkar íslendinga.
Af hverju valdir þú hestamennsku og gönguskíði? Prófaði að fara á skíði sjö ára með Bergrósu vinkonu minni og fannst æðislegt. Sjöfn kom og var með hestanámskeið og ég ákvað að fara og fannst gaman.
Hver er fyndnastur af þeim sem þú þekkir? Biggi vinur minn er algjör grínisti.
Hvað er skemmtilegast og leiðinlegast við þína íþrótt? Skemmtilegast örugglega að renna í stóru brekkunni og hossubrautinni. Leiðinlegast að það er ekki hægt að æfa hana á sumrin og að maður meiðir sig mikið þegar maður dettur. Með hestana að það er vont að detta en gaman að fara í reiðtúr.
Niðurstaða kosninga í Reykhólahreppi
Í Reykhólahreppi var persónukosning, engir framboðslistar voru lagðir fram. Atkvæði voru nokkuð dreifð og því var talning seinlegri og flóknari en oft áður, en henni lauk um miðnætti.
Á kjörskrá voru 184, alls greiddu atkvæði 99, þannig að kjörsókn var 53,8%. Auðir og ógildir seðlar voru 6.
Atkvæði féllu þannig:
Aðalmenn
Árný Huld Haraldsdóttir 58 atkv.
Jóhanna Ösp Einarsdóttir 53 -
Hrefna Jónsdóttir 52 -
Vilberg Þráinsson 30 -
Margrét Dögg Sigurbjörnsdóttir 28 -
Varamenn
- Arnþór Sigurðsson
- Rebekka Eiríksdóttir
- Eggert Ólafsson
- Ingibjörg Birna Erlingsdóttir
- Kolfinna Ýr Ingólfsdóttir
Uppfært 15. maí;
Á nýafstöðnu ungmennaþingi í Reykhólahreppi voru haldnar skuggakosningar til sveitarstjórnar og það er merkilega mikill samhljómur með niðurstöðum þeirra og sveitarstjórnarkosninganna. Ekki er því líklegt að það hefði haft áhrif á niðurstöðu þessara kosninganna þó fólk kæmist yngra á kosningaaldur.
Niðurstöður skuggakosninga ungmennaþings:
Aðalmenn:
Árný Huld Haraldsdóttir
Jóhanna Ösp Einarsdóttir
Hrefna Jónsdóttir
Vilberg Þráinsson
Margrét Dögg Sigurbjörnsdóttir
Varamenn:
- Arnþór Sigurðsson
- Rebekka Eiríksdóttir
- Kolfinna Ýr Ingólfsdóttir
- Katla Sólborg Friðriksdóttir
- Eiríkur Kristjánsson
Handverksmarkaður Össu opnaður 13. maí
Ungmennaþing 12. maí
Nýtt ungmennaráð, aðalmenn:
Ásborg Styrmisdóttir,
Birgitta Rut Brynjólfsdóttir,
Elísa Rún Vilbergsdóttir,
Hrafnhildur Sara Baldvinsdóttir,
Kristján Steinn Guðmundsson.
Varamenn:
- Hildigunnur Sigrún Eiríksdóttir,
- Víkingur Þór Eggertsson,
- Bergrós Vilbergsdóttir,
- Smári Gilsfjörð Bjarkason,
- Ísak Logi Brynjólfsson.
Þess má geta að öll ungmennin í ungmennaráðinu eiga foreldri sem gegnt hefur starfi kjörins fulltrúa í Reykhólahreppi.
...Meira
Margrét Dögg vill verja kröftum í þágu samfélagsins
Elsku íbúar Reykhólahrepps!
Ég hendi þessu hérna inn á síðustu stundu, kosningar á morgun. En eftir miklar ofhugsanir og pælingar þá hef ég ákveðið að ég vil gefa kost á því að þið getið kosið mig í næstu sveitastjórn.
Frá því að ég man eftir mér hefur mér alltaf þótt endalaust vænt um sveitina mína og langar að geta haft áhrif á það að byggja upp og efla samfélagið í hreppnum.
Fjölskyldan í fyrirrúmi!!!!
Margrét Dögg Sigurbjörnsdóttir