Súðbyrðingar á skrá UNESCO
Súðbyrðingar á skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf
Smíði og notkun súðbyrðinga, hefðbundinna norrænna trébáta, er komin á skrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) yfir óáþreifanlegan menningararf. Þetta er fyrsta íslenska tilnefningin og fyrsta samnorræna tilnefningin sem samþykkt var á fundi Milliríkjanefndar um varðveislu menningarerfða í París 14. desember.
Vitafélagið – íslensk strandmenning hafði veg og vanda af undirbúningi tilnefningarinnar fyrir hönd Íslands, undir forystu Sigurbjargar Árnadóttur.
Hinn dæmigerði norræni trébátur — súðbyrðingurinn — hefur fylgt Norðurlandabúum um árþúsundir og greitt þeim leið um hafið. Súðbyrðingarnir voru farkostir fólks hvarvetna með ströndum Norðurlandanna, þeir voru mikilvæg samgöngutæki sem tengdu Norðurlandaþjóðirnar og á þeim var dregin björg í bú. Súðbyrðingunum tengist dýrmætur norrænn menningararfur og þeir gegna ríku hlutverki í strandmenningu Norðurlandaþjóðanna. Í öðrum heimshlutum eru súðbyrtir bátar nær óþekktir.
Þessi verkþekking er nú komin á lista UNESCO yfir menningarerfðir mannkyns – listann yfir þýðingarmikla starfshætti sem borist hafa frá kynslóð til kynslóðar – hefðir sem munu hverfa verði þeim ekki viðhaldið.
Í tilefni af þessum merka áfanga var áformað að halda sameigilega athöfn í Noregi þar sem fulltrúar frá norðurlöndunum kæmu saman, en vegna Covid var hætt við það og í stað þess voru í gær athafnir í hverju landi fyrir sig, allar á sama tíma. Hér á Íslandi var samkoman í Norræna húsinu, þar sem mættu fulltrúar hins opinbera, fólk sem vann að undirbúningi tilnefningarinnar og áhugamenn um smíði og varðveislu súðbyrðingsins. Meðal þeirra voru Hafliði Aðalsteinsson og Hjalti Hafþórsson.
Nokkra kátínu vakti að sumir sem tóku til máls við athöfnina áttu í erfiðleikum með að bera fram orðið súðbyrðingur og þekktu það eiginlega ekki, enda er það dálítill tungubrjótur.
Af þessu tilefni var í þættinum Víðsjá á rás 1 rætt við þá Hafliða Aðalsteinsson og Einar Jóhann Lárusson nema, um bátasmíðar. (viðtalið hefst á mínútu 8:35)
Jólasveinn grípur í tómt... !
Það getur valdið ýmsum óþægindum ef áætluð dagskrá breytist fyrirvaralítið. Pottaskefill ætlaði að mæta á hreppsnefndarfund í dag, þess fullviss að þar kæmist hann í viðeigandi félagsskap og gæti aflað frétta, hvort hreppsnefndin væri búin að fá mikið af kartöflum í skóinn og svona.
En fundinum var frestað svo Jóli kom fýluferð á skrifstofuna. Ásta Sjöfn náði meðfylgjandi mynd.
Sveitarstjórnarfundi frestað til 21. des.
Þorláksmessuskatan 2021
Í hádeginu á þorláksmessu bjóða Lionsmenn upp á skötu, með viðeigandi meðlæti og útáláti i matsal Reykhólaskóla.
Viðvaningar og viðkvæmir geta fengið saltfisk og þarf því að panta í síðasta lagi 22. des.
Hjá Ingvari í síma 898 7783 eða ingvarsam@visir.is
Verð:
- fyrir fullorðna kr. 3.500.-
- fyrir 12 til 16 ára kr. 1.500.-
- frítt fyrir yngri.
LIONSKLÚBBUR BÚÐARDALS REYKHÓLADEILD
Fjárhagsáætlun 2022-2025 komin á vefinn
Fjárhagsáætlun Reykhólahrepps fyrir árin 2022 - 2025 er komin á vefinn og er aðgengileg hér og undir stjórnsýsla hér vinstra megin.
Gert er ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu öll árin. Á komandi ári 2022 eru tekjur áætlaðar rúmar 687 millj. í samanteknum A og B hluta, en gjöld 648 millj. Stærsti einstaki gjaldaliðurinn er launakostnaður 408,5 millj.
Meðal verkefna á áætlun sem ýmist eru fyrirhuguð eða er unnið að, er eins og áður hefur komið fram stuðningur við barnafjölskyldur í formi niðurfellingar leikskóla- og tónlistarskólagjalda.
Endurbygging bryggjunnar á Reykhólum er í undirbúningi og standa yfir samningar við verktaka, en það er Hagtak hf.
Ákveðið hefur verið að ráðast í gagngerar endurbætur á sundlauginni og er nefnd að störfum við undirbúning þess.
Myndarleg gjöf frá Lions
Fyrir skömmu afhenti Ingvar Samúelsson Reykhólahreppi fyrir hönd Lions, myndvarpa, rafstýrt sýningartjald og hljóðkerfi ásamt uppsetningu. Búnaðinum var komið fyrir í matsal Reykhólaskóla sem oft er notaður fyrir fundi.
Tilgangur gjafarinnar er að hluta til að eiga þess kost að bjóða uppá aðstöðu við fjölmennar athafnir eins og jarðarfarir, þegar fjöldi gesta er slíkur að ekki er pláss í kirkjunni fyrir alla.
Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri tók á móti gjöfinni fyrir hönd Reykhólahrepps og þakkaði Lions kærlega fyrir þessa góðu gjöf, hún á eftir að koma sér mjög vel og bæta fundaraðstöðu töluvert fyrir sveitarfélagið og fleiri aðila.
Álagablettir á Ströndum
Út er komin bókin Álagablettir á Ströndum. Höfundar eru Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson þjóðfræðingar á Kirkjubóli. Það eru Sauðfjársetur á Ströndum og Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofa sem gefa bókina út í samvinnu.
Bókin er 160 síður og fleytifull af áhugaverðum og krassandi sögum um álagabletti á Ströndum, fallegum litljósmyndum af álagastöðum og margvíslegum fróðleik.
Sauðfjársetrið sér um dreifinguna (Ester s. 693-3474, saudfjarsetur@saudfjarsetur.is og á fésbókinni.
Kjarnakonur í rúningi
Þær stöllur Heiða Guðný Ásgeirsdóttir og Marie Prebble sem sagt var frá hér á síðunni í fyrra, voru að ljúka mánaðar rúningsferð um landið fyrir nokkrum dögum.
Þær tóku af á nokkrum bæjum hér í Reykhólasveit og geta lesendur spreytt sig á að þekkja þá í myndasyrpunni sem er hér og var nappað af fb. síðu Heiðu Guðnýjar.
Það er óhætt að segja að þær hafa aflað sér mikilla vinsælda fyrir dugnað, framúrskarandi vinnubrögð og hispurslausa framkomu, þær taka sjálfar sig heldur ekki of alvarlega.