Í mörg horn að líta hjá Helgu og Arnþóri
Sjöfn Sæmunds búin að versla og Tumi tínir upp úr körfunni
Tumi er náttúrlega aðalkúnninn
Strax komin röð
Það var boðið upp á veitingar í tilefni dagsins
Hausinn með dagsetningu og öllu
Á Reykhólum hefur ekki verið opin verslun í nærri 7 mánuði. Eins og nærri má geta hefur það haft í för með sér óþægindi og óhagræði fyrir fólkið á svæðinu.
Í gær opnuðu þau Helga Guðmundsdótttir og Arnþór Sigurðsson verslun sem þau nefna Reykhólabúðina. Þau hafa varið miklum tíma í undirbúningsvinnu, sem kemur reyndar til með að skila sér í léttari vinnu og betri yfirsýn á hreyfingu á vörum og lagerhaldi þegar fram í sækir.
Margir lögðu leið sína í búðina þegar hún var opnuð og myndaðist röð við kassann strax á fyrsta hálftímanum. Viðskiptavinir sáu að ekki voru allar hillur fullar, það átti sér skýringar. Hluti af fyrstu vörusendingunni hafnaði nefnilega í Reykholti og rataði ekki á réttan stað fyrr en um það leyti sem þau voru að opna. Samt var ágætis vöruúrval.
Húsnæði Reykhólabúðarinnar hefur hýst verslun í nær 30 ár. Það voru þau Ingvar Samúelsson og Sólrún Ósk Gestsdóttir sem opnuðu þarna árið 1991. Til að byrja með var þarna sjoppa og eldsneytissala, en svo vatt þessi rekstur utan á sig og nú er búið að byggja þrisvar við, fyrst til að stækka verslunarrými, síðan lagerhúsnæði og síðast var veitingasalnum bætt við.
Á þessum 30 árum hafa 7 aðilar rekið verslunina, undir ýmsum nöfnum. Þegar hún var stofnuð hlaut hún heitið Arnhóll, síðan var hún nefnd Hólakaup, þar næst Hólabúð og nú er það Reykhólabúðin.
Verslunarekstur á Reykhólum hófst um miðja síðustu öld, raunar er það skilgreiningaratriði, því að árið 1928 var komið upp aðstöðu til sauðfjárslslátrunar við Reykhólasjóinn (þar sem sjónvarpsmastrið er) og kjötið, sem var allt saltað, flutt þaðan sjóleiðina á markað. Um annað var ekki að ræða því ekki voru komnir neinir vegir. Síðast var slátrað þar 1947. Þar var líka skipað upp vörum, sekkjavöru, kolum og annarri þungavöru.
Kaupfélag Króksfjarðar opnaði útibú á Reyhólum uppúr 1950 og um sama leyti rak Sæmundur Björnsson litla verslun í Sæmundarhúsinu, sem hann byggði og er kennt við hann. Henni var lokað þegar Sæmundur flutti frá Reykhólum nokkrum árum síðar. Útibúi kaupfélagsins var lokað laust fyrir síðustu aldamót.
Leiðrétting
Síðustjóra urðu á mistök þegar talin voru upp hin ýmsu heiti verslunarinnar. Þá láðist alveg að geta þess að um árabil var rekin þarna Jónsbúð, nefnd eftir eigandanum Jóni Kjartanssyni.
Það er líka rétt að geta þess að allir þeir sem hafa fengist við verslunarrekstur þarna hafa lagt sig fram um að veita sem besta þjónustu.
Vefstjóri biðst velvirðingar á þessari hroðvirkni.