Tenglar

Könnun vegna almenningssamgangna á milli Reykhóla og Króksfjarðarness vegna leiðar 59 hjá Strætó.

 

Unnið er að því þessa dagana að koma á almenningssamgöngum á milli Reykhóla og Króksfjarðarness í tengslum við ferðir Strætó, leiðar 59.  Verkefnið er enn á vinnslustigi.

Skv. vetrartöflu Strætó ekur leið 59 frá Reykjavík til Hólmavíkur með viðkomu í Króksfjarðarnesi föstudaga og sunnudaga og sömu leið til baka. 

 

Í tengslum við verkefnið vill skrifstofa Reykhólahrepps kanna áhuga aðila til að taka að sér aksturinn. Áhugasamir aðilar gefi þeir sig fram við skrifstofu á netfangið skrifstofa@reykholar.is.

 

Aðilinn þarf að hafa öll tilskilin leyfi til aksturs með farþega og bifreið til afnota sem uppfyllir skilyrði um farþegaakstur.

Áætluð vegalengd á milli Reykhóla og Króksfjarðarness eru 30 km. 

Um klukkustundar bil er á milli komu Strætó frá Borgarnesi til Króksfjarðarness og brottfarar Strætó frá Króksfjarðarnesi til Borgarness.  Aka þarf báða ferðir, báða dagana.

Verkefnið hefur ekki verið útfært að fullu, en til greina kemur að farþegar hringi í aðila til að ræsa ferð, verktaki verði annars á bakvakt.

 

Skrifstofa Reykhólahrepps.

 

 

 

Ólafsdalur 8. júní 2021, myndir frá Rögnvaldi Guðmundssyni
Ólafsdalur 8. júní 2021, myndir frá Rögnvaldi Guðmundssyni
1 af 2

Vegna mikilla framkvæmda Minjaverndar við endurreisn staðarins, mun sumaropnun Ólafsdalsfélagsins ekki hefjast fyrr en sunnudaginn 25. júlí.

Eftir það verður opið alla daga til  15. ágúst kl. 12.00-17.00.

Léttar veitingar, sýningar og leiðsögn.

 

Þrettánda Ólafsdalshátíðin (Ólafsdal í Gilsfirði) verður haldin laugardaginn 14. ágúst, kl. 11-17.

Þetta verður kynnt betur þegar nær dregur.

1 af 4

Rétt ofan við Heilsugæsluna á Reykhólum stendur símaklefi. Hann er þó ekki tengdur við neitt símakerfi, heldur gegnir hann hlutverki sjálfsala.

 

Það er Dísa Sverrisdóttir á Reykhólum sem á þennan símaklefa. Hugmyndin að þessari útgerð bara kom, eins og hún segir. Hún hefur fengist við að baka hverabrauð, sem er seytt rúgbrauð bakað í sjóðandi hver, og þau hafa notið mikilla vinsælda. Í framhaldi af því ákvað Dísa að prófa að setja upp sjálfsafgreiðslu á brauðunum.

 

Það var töluverð undirbúningsvinna við að setja klefann upp. Hann sótti hún suður í Þjórsárdal, þar sem hann átti að vera útisturtuklefi en varð ekki af. Það þurfti að dytta að ýmsu áður en hægt var að setja klefann upp og kom sér þá vel að Dísa og maður hennar, Jón Atli Játvarðarson eru bæði með afbrigðum handlagin og útsjónarsöm. Sem dæmi smíðaði Dísa baukinn sem viðskiptavinir setja andvirði brauðanna í.

 

Líklegt er að innan tíðar verði á boðstólum þarna líka tómatar og gúrkur frá Magnúsi Sigurgeirssyni í Görðum, auk brauðanna og etv. eitthvað fleira.

 

Dísa sagði að hún hafi ekki staðið ein í þessu, hún hafi fengið aðstoð frá fjölskyldu og nágrönnum, og að allir hafi sýnt þessu velvilja.

 

 

 

Svavar Knútur á tónleikaferð um Ísland


Svavar Knútur söngvaskáld fagnar nýju sumri með tónleikaferðalagi um landið.

25. júní kl. 21 - Báta- og hlunnindasýningin á Reykhólum.

 

Miðaverð er kr. 2.500.- Hægt er að kaupa miða hér

Tix.is - Krummar Krunka líka á sumrin - Velja miða

 

 

Hringt var á hreppsskrifstofuna um morguninn þriðjudaginn 22. júní og uppi varð fótur og fit. Samkvæmt símtalinu, sem var frá starfsmanni MAST, þá var steypireyður fastur í Berufirði og það þurfti að bjarga honum.

Finna þurfti einhvern til þess að vera í samskiptum við MAST vegna björgunaraðgerða. Inga Birna var í leyfi og því var hringt í Árnýju oddvita en hún var upptekin og því tók Ingimar að sér að vera fulltrúi Reykhólahrepps í björgunaraðgerðum.

 

Hann hafði samband við konuna hjá MAST sem tjáði honum að þetta væri bara hnúfubakur en ekki steypireyður. Það væri flóð kl. 14 og þá best að bjarga honum.

 

Ingimar og stelpurnar á skrifstofunni skelltu sér í bílinn og keyrt var á öðru hundraðinu til þess að sjá skepnuna með berum augum en lítið fór fyrir henni. Þá hringdi starfsmaður MAST aftur í Ingimar og sagði honum að hugsanlega væri hnúfubakurinn laus, bændurnir á Lindarbrekku hefðu haft samband.

Eitthvað þótti þetta skrítið, enginn hafði heyrt um nýbýlið Lindarbrekku og Ingimar spurði hvort að hún væri að meina Berufjörð fyrir austan? Sem reyndist vera.

 

Hvað lærðum við á þessu? Miklvægt er að þekkja landið sitt!

 

 

 

Reykhóladagar 2019, keppni í ökuleikni á traktor í undirbúningi.
Reykhóladagar 2019, keppni í ökuleikni á traktor í undirbúningi.
1 af 2

Reykhóladagar verða á sínum stað 23.-25. júlí.


 Hefur þú áhuga á að vera með viðburð á bæjarhátíðinni okkar?

 

-Bjóða heim í súpu

-Bjóða heim í garðpartý

-Sjá um viðburð

 

Eða bara senda hugmyndir að skemmtilegum viðburðum sem þú vilt sjá á dagskránni!

 

Ef þú vilt setja þitt mark á hátíðina þá endilega hafðu samband við Jóhönnu Ösp tómstundafulltrúa, email: johanna@reykholar.is fyrir 1. júlí nk.

 

 

Fyrir miðri mynd er Göltur, sem virkjunin dregur nafn sitt af.
Fyrir miðri mynd er Göltur, sem virkjunin dregur nafn sitt af.
1 af 4

Í dag var byrjað að steypa undirstöður inntaksbúnaðar fyrir Galtarvirkjun í Garpsdal. Það er fyrirtækið Orkuver sem byggir þessa virkjun. Þeir hafa komið að mörgum smærri virkjunum víða um land frá því fyrirtækið var stofnað árið 2003.

 

Galtarvirkjun verður rennslisvirkjun, sem þýðir að ekkert uppistöðulón verður gert. Þrýstipípa virkjunarinnar verður grafin niður, svo lítið sést af mannvirkjum þegar framkvæmdum er lokið.

 

Áætlað er að virkjað rennsli verði um 1,23 m3/s. Staðsetning inntaks verður norður af Garpsdalsvatni og frá inntaki verður lögð um 2,4 km löng þrýstipípa að stöðvarhúsi neðan gamla þjóðvegarins. Fallhæð verður um 84 metrar og uppsett afl virkjunarinnar verður 950 kW.

 

22. júní 2021

Sundlaugin lokuð

Af óviðráðanlegum orsökum er Grettislaug lokuð um óákveðinn tíma.

 

Búningsklefarnir eru þó opnir svo gestir á tjaldstæðinu geta farið í sturtu.

 

Opnun sundlaugarinnar verður auglýst síðar.

Svavar Knútur á tónleikaferð um Ísland

Svavar Knútur söngvaskáld fagnar nýju sumri með tónleikaferðalagi um landið. Þráláti húsbrjóturinn sem skemmdi síðasta árið hörfar nú óðum og því ber að fagna. Á tónleikunum mun Svavar Knútur segja sögur, leika lög úr öllum áttum, bæði frumsamin og sígild, gömul og ný.

Þó Söngvaskáld, rétt eins og íslenski hrafninn, séu vissulega gjarnan tengd við myrkari og kaldari tíð, eiga þau þó sitt erindi og hlutverk á björtum sumardögum.


Svavar vinnur nú að nýrri plötu og mun að sjálfsögðu leika lög af henni meðfram eldra efni. Tilhlökkunin er áþreifanleg.

 

Næstu tónleikar eru:

23. júní kl. 20 - Vatnasafnið í Stykkshólmi - Ókeypis, í boði Vatnasafnsins.
25. júní kl. 21 - Báta- og hlunnindasýningin á Reykhólum
26. júní kl. 21 - Erpsstaðir í Dölum
27. júní kl. 21 - Skrímslasetrið í Bíldudal

 

Miðaverð er kr. 2.500.- Hægt er að kaupa miða hér

Tix.is - Krummar Krunka líka á sumrin - Velja miða

 

Silvía Kristjánsdóttir, mynd af fb.
Silvía Kristjánsdóttir, mynd af fb.
1 af 6

Margir brugðu sér í Bjarkalund á þjóðhátíðardaginn í björtu og fallegu veðri, samt var nú ekki tiltakanlega hlýtt. Þar voru kvenfélagið Katla og hótelið með dagskrá sem var með hefðbundnu sniði.

 

Alltaf er spenningur að sjá hver er fjallkonan. Að þessu sinni var það Silvía Kristjánsdóttir sem brá sér í það hlutverk. Hún ávarpaði samkomuna og flutti síðan ljóð eftir Þórarin Eldjárn, sem heitir eimitt Ávarp fjallkonu. Sólveig Arnarsdóttir flutti það á þjóðhátíðardaginn árið 2007 í Reykjavík.

 

Ávarp fjallkonu

 

Að eiga sér stað

í staðlausum heimi
eiga þar heima
eiga heima í heimi
eins og ekkert sé.
Eiga þar
varnarþing
viðspyrnu
vé.

Að eiga sér mál
í málóðum heimi
sækja í þann sjóð
sagnir
fræði
ljóð
enn og aftur
geta ekki hætt að gruna
né gleymt að muna.

Að eiga sér fjall
í flötum heimi
eiga þar skjól
skína við sól
láta sér lynda
leik regns og vinda.

Eiga þar
mark
mið
kennileiti.

Fjall
að horfa á
inn til lands
að horfa af
út yfir haf.

Fjall
kona
karl
er allt
sem
þarf
í arf.

Það er sú þrenning
sem rímar á móti menning.

 

Atburðadagatal

« Aprl 2025 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30