Tenglar

11. október 2022

Hörkutól í sjósundi

Hópurinn í fjörunni í Miðhúsatöngunum. mynd, Erna Héðinsdóttir
Hópurinn í fjörunni í Miðhúsatöngunum. mynd, Erna Héðinsdóttir

Um helgina fyrir rúmri viku, var haldið sjósundnámskeið á Reykhólum. Námskeiðið var haldið að frumkvæði Ingibjargar Sveinsdóttur á Miðhúsum, en hún hefur stundað sjósund síðan um aldamót.

 

Kennari var Erna Héðinsdóttir, markþjálfi og næringarfræðingur. Hún hefur um árabil kennt sjósund.

Þátttaka var góð, 12 manns sóttu námskeiðið, konur í meirihluta eða 11. Það var Bergþór Thorstensen sem var eini karlinn í hópnum.

 

Margir sem prófa sjósund eða sjóböð ánetjast þeim og láta ekki á sig fá þótt veðrið sé kalt. Þeir sem stunda sjósund gera það sér til skemmtunar, vegna félagsskaparins og til þess að bæta líkamlegt atgervi og þol. Ýmsar kenningar hafa verið uppi um ágæti sjósunds og efast fáir um að það bæti og efli ónæmis- og æðakerfi líkamans. Fjölmargir sjósundsmenn geta staðfest þetta og hafa ekki kennt sér meins síðan þeir byrjuðu að stunda sjósund. Sjóböð hjálpa líka fólki að takast á við þunglyndi.

 

Ein þeirra sem var á námskeiðinu var Bettina Seifert, sem er austurrísk að uppruna en hefur búið hér á landi alllengi. Hún sagði að sér hefði alla tíð fundist fjarstæða að sulla í köldu vatni, ekki síst hér þar sem nóg er af heitu vatni. Þar sem hún er félagslynd og ögn forvitin ákvað hún að taka þátt í þessu námskeiði. Þegar var komið að því að fara í sjóinn leist henni ekki meira en svo á blikuna en lét sig hafa það og sagði að það hefði verið mikill persónulegur sigur. Næstu skipti voru svo bara auðveld. Hún lét þess getið að félagsskapurinn hefði líka verið mikil hvatning.

 

Fólk sem hefur áhuga á að prófa sjósund er velkomið í hópinn.

 

485. lögboðnum fundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps sem vera átti 12. október, er frestað til 19. október.

Ungmennaráð Reykhólahrepps hélt fund í gær. Fundargerðin er hér neðst á síðunni. 

Einn liðurinn er framtíðarsýn ungmennanna, þar sem þau setja fram  hvernig þau sjá fyrir sér Reykhóla og sveitina eftir 20 ár.

 

Þá munu búa hér yfir 800 manns, verslun og þjónusta hefur vaxið í samræmi við það, gróðurhúsum hefur fjölgað, aðstaða fyrir störf án staðsetningar hefur verið byggð upp og haldið ykkur nú... það hefur verið plantað trjám, sem eru orðin það stór að það er ekki eins vindasamt á Reykhólum og var fyrir nærri aldarfjórðungi.

 

Margt fleira er talið upp, náttúrulaug, stórt hótel, framhaldsskóli og nýr leikskóli svo eitthvað sé nefnt. 

 

Það er virkilega mikils virði að unga fólkið okkar hugleiði möguleika til uppbyggingar á svæðinu og fái hvatningu til að koma hugmyndunum á framfæri.

 

Staða aðstoðarmatráðs í mötuneyti Reykhólahrepps - 50-75% starfshlutfall - best að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

Starfar við matargerð og þrif í eldhúsi.

Sjá auglýsingu hér og í Laus störf.

Smíðavinnustofa í tré á vegum Félagsþjónustunnar verður opnuð á ný næsta fimmtudag, 6. okt.
Rebekka Eiríksdóttir á Stað sér um vinnustofuna sem verður í smíðastofu Reykhólaskóla á fimmtudögum, milli kl. 15 og 18.

Vinnustofan verður opin á þessum tíma til mánaðamóta apríl - maí.

Eldri borgarar ganga fyrir en annars eru allir velkomnir.
Ekki er nauðsynlegt að skrá þátttöku, bara að mæta.

 

Hvatning um þáttöku í viðhorfskönnun um fiskeldi og samgöngumál.


Vestfjarðastofa vill hvetja alla til að taka þátt í viðhorfskönnuninni sem send var í pósti á alla með lögheimili á Vestfjörðum um viðhorf þeirra til fiskeldis og samgöngumála en markmiðið er að fá fram væntingar og viðhorf Vestfirðinga.

 

Sama könnun var lögð fyrir Vestfirðinga árið 2020 og hafa niðurstöður þeirrar könnunar verið nýttar í hagsmunagæslu fjórðungsins. Til að ná til sem flestra hefur verið farin sú leið að senda bréf til allra og hægt er að fara tvær leiðir til þáttöku. Fara á netslóðina sem fram kemur í bréfinu ásamt lykilorði eða að nota QR kóðann ásamt lykilorði en með þessum hætti er auðvelt að taka þátt í könnuninni.

 

Til að tryggja jafnræði íbúanna er könnunin á þremur tungumálum; íslensku, ensku og pólsku. Það er rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) sem sér um framkvæmd könnunarinnar fyrir hönd Vestfjarðastofu.

 

Með könnuninni gefst öllum íbúum Vestfjarða einstakt tækifæri til að láta skoðun sína í ljós á þessum tveimur málaflokkum sem hafa verið í brennidepli undanfarin ár. Niðurstöður verða meðal annars nýttar í stefnumótun sveitarfélaga og svæðisins alls til hagsbóta fyrir íbúana.

 

Meðfylgjandi er hlekkurinn að könnuninni https://survey.sogolytics.com/p/vestfjardastofa

En síðan þarf að nota lykilorðið sem er í póstinum.

 

 Guðrún Anna Finnbogadóttir

Verkefnastjóri Vestfjarðastofu

 


29. september 2022

Vetrartími í Reykhólabúðinni

mynd, Reykhólabúðin
mynd, Reykhólabúðin

Vetraropnunartími Reykhólabúðarinnar:

þriðjudaga til föstudaga:  12:00 - 18:00

laugardaga:                      13:00 -16:00

Lokað sunnudaga og mánudaga.

 

Vinsamlega athugið að Reykhólabúðin verður lokuð í 3 daga næstu helgi:

laugardaginn 1. okt. til mánudags 3. okt.

Opnum aftur þriðjudaginn 4. október kl. 12:00

 

21. september 2022

Inflúensubólusetning 2022

Bólusetning gegn árlegri inflúensu er hafin á heilsugæslustöðvunum í Búðardal og á Reykhólum.

 

Sóttvarnalæknir mælist til að eftirtaldir hópar njóti forgangs við inflúensubólusetningar:

 

  • Allir einstaklingar 60 ára og eldri.
  • Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
  • Þungaðar konur.
  • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.

 

Ofangreindum forgangshópum stendur bóluefni til boða sér að kostnaðarlausu en hvort greiða þarf komugjald á heilsugæslustöð fer eftir stöðu hvers og eins í greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands.

 

Ekki þarf að bóka tíma á auglýstum tímasetningum en óski fólk eftir bólusetningu á öðrum tímum er betra að hafa samband við heilsugæsluna í síma 432 1450 með fyrirvara.

 

Boðið er upp á eftirfarandi daga vegna bólusetninga fyrir forgangshópa

 

Búðardalur frá kl. 9:00 til kl. 12:00 dagana 23. 27. og 28. september

Reykhólar frá kl. 13:30 til kl. 15:00 þriðjudaginn 27. september

 

Nánari upplýsingar er að finna á vef landlæknisembættisins www.landlaeknir.is/ og einnig á heilsuvera.is

 

 

 

 

Guðrún J. Guðmundsdóttir augnlæknir verður með móttöku á heilsugæslustöðinni í Búðardal föstudaginn 23. september nk.

 

Tímapantanir eru í síma  432 1450

 

Sl. föstudag var byrjað að steypa burðarbita og gólfið á brúna yfir Þorskafjörð. Það er steypt í einu lagi og var tekinn fyrir  helmingur brúarinnar, 130 metrar. Í þennan hluta fóru um 1.300 m3 af steypu. Áður var búið að steypa stöpla, 7 að tölu. Það eru byggingafyrirtækið Eykt og Steypustöðin sem sjá um brúasmíðina.

 

Mikinn undirbúning þarf fyrir þetta stóra steypu og ekkert má fara úrskeiðis. Því voru vara tæki af öllu tagi til taks, steypubíll, steypudæla, hjólaskófla til að moka í steypustöðina og varaleiðir til vatnsöflunar.

Er skemmst frá því að segja að allt gekk án mikilla áfalla þessar liðlega 30 klst. sem steypuvinnan tók.

 

Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30