Gufudalssveit: Gert ráð fyrir sjö milljörðum á tíu árum
Tillaga að samgönguáætlun til tíu ára var lögð fram á Alþingi í gær. Henni er skipt í þrjú tímabil og tiltekið hvaða framkvæmdir eru áformaðar og á hvaða tímabili. Áætlað er að verja alls sjö milljörðum króna til nýs vegar um Gufudalssveit, þar af 2.750 milljónum á tímabilinu 2015-2018, 3.250 milljónum á tímabilinu 2019-2022 og 1.000 milljónum á tímabilinu 2023-2026. Lengd hins nýja vegar er sögð óviss. Ekki hefur verið ákveðið hvaða leið skuli valin enda hefur ekki verið unnið í því máli nema mestan hluta þess tíma sem liðinn er af þessari öld. Á tímabilinu 2019-2022 er gert ráð fyrir 250 milljónum króna til nýs þriggja kílómetra vegarkafla framhjá Skriðulandi í Saurbæ rétt sunnan Gilsfjarðar.
...Meira