Sérstök atkvæðagreiðsla á Vestfjörðum fyrir þá sem eru í sóttkví eða einangrun vegna COVID 19 farsóttarinnar
Ákveðið hefur verið að kjósendur á Vestfjörðum sem eru í sóttkví eða einangrun vegna COVID 19 farsóttarinnar geti, líkt og kjósendur annars staðar á landinu, greitt atkvæði við Alþingiskosningarnar 25. september nk. á dvalarstað sínum eða sérstökum kjörstöðum þar sem atkvæðagreiðsla fer fram í lokaðri bifreið til að tryggja sóttvarnir.
Í nýrri reglugerð sem um þetta gildir, reglugerð nr. 1033/2021 um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar vegna sóttkvíar eða einangrunar vegna Covid 19 farsóttarinnar, sem gefin var út 14. september sl., kemur m.a. fram að kjósandi sem er í sóttkví eða einangrun teljist hvorki fær um að árita kjörseðilinn á fyrirskipaðan hátt né undirrita fylgibréf og því skuli kjörstjóri veita honum aðstoð við það án þess að nokkur annar sjái.
Atkvæðagreiðsla á sérstökum kjörstað fer fram sem hér segir:
Ísafjörður, skoðunarstöð Frumherja, Skeiði, Ísafirði
Fimmtudaginn 23. september kl. 16:15 – 17:15.
Laugardaginn 25. september kl. 11:00 – 12:00.
Hólmavík, lögreglustöðin, Skeiði 2, Hólmavík
Fimmtudaginn 23. september kl. 14:00 - 15:00.
Laugardaginn 25. september kl. 11:00 - 12:00.
Patreksfjörður, slökkvistöðin, Þórsgötu 7, Patreksfirði
Fimmtudaginn 23. september kl. 14:00 - 15:00.
Laugardaginn 25. september kl. 11:00 - 12:00.
Um atkvæðagreiðsluna gilda svohjóðandi reglur:
Óheimilt er að opna dyr eða glugga ökutækis og þurfa samskipti því að fara fram í gegn um rúðu bifreiðar-innar. Að jafnaði er miðað við að ökumaður sé einn í bifreiðinni.
Kjósandi skal upplýsa kjörstjóra um hvernig hann vill greiða atkvæði, t.a.m. með því að sýna kjörstjóra blað með listabókstaf framboðs eða á annan hátt sem kjörstjóri telur öruggan og nægilega skýran.
Um atkvæðagreiðslu á dvalarstað gilda svohljóðandi reglur:
Ef kjósandi sem staddur er í umdæminu á þess ekki kost að koma á kjörstað í ökutæki getur hann sótt um að greiða atkvæði á dvalarstað sínum. Þarf hann þá að senda beiðni um að greiða atkvæði á dvalarstað sínum til sýslumanns í því umdæmi sem hann dvelur. Þeir sem dvelja á Vestfjörðum skulu senda beiðni með tölvupósti til embættisins í netfangið vestfirdir@syslumenn.is eða með öðrum tryggum hætti og skal umsókn hafa borist sýslumanni eigi síðar en kl. 10.00 á kjördag, sé dvalarstaður kjósanda í því kjördæmi sem hann á kosningarrétt í, en annars eigi síðar en kl. 10.00 tveimur dögum fyrir kjördag.
Í beiðni um að greiða atkvæði á dvalarstað skal koma fram:
- Dagsetning beiðni.
- Nafn, kennitala og lögheimili kjósanda.
- Upplýsingar um dvalarstað kjósanda.
- Upplýsingar um hvort kjósandi sé í sóttkví eða einangrun.
- Upplýsingar um hvers vegna kjósanda, sem er í sóttkví, sé ókleift að greiða atkvæði á sérstökum kjörstað fyrir þá sem eru í sóttkví eða einangrun.
- Upplýsingar um hvort kjósandi óski aðstoðar fulltrúa sem hann hefur valið sjálfur við atkvæðagreiðsluna, hver sá fulltrúi sé og undirritað þagnarheit hans skal fylgja með.
Beiðni skal fylgja staðfesting sóttvarnayfirvalda á að viðkomandi sé í einangrun eða sóttkví fram yfir kjördag.
Með þessu fyrirkomulagi á að vera tryggt að allir sem eru í sóttkví eða einangurn vegna Covid19 farsóttarinnar geti neytt atkvæðisréttar síns.
Ýmsar frekari upplýsingar má finna á vef stjórnarráðsins á slóðunum kosning.is og covidkosning2021.is .
Upplýsingar er einnig að finna á vef sýslumanna á slóðinni https://island.is/s/syslumenn/kosningar
Ísafirði, 22. september 2021.
Jónas B. Guðmundsson
sýslumaður