Hlynur Þór - kveðja
Í dag 5. mars, hefði Hlynur Þór Magnússon orðið 71 árs. Hann kvaddi þennan heim um síðustu jól eftir erfið veikindi.
Hlynur bjó á Reykhólum liðlega 11 ár, og hafði með höndum umsjón þessa vefjar um 9 ára skeið, þar til fyrir rúmu ári að hann lét af störfum vegna heilsubrests.
Það var mikið lán fyrir Reykhólahrepp að fá Hlyn til að stjórna þessum vef, því hann hafði áratugareynslu af blaðamennsku, kunnáttu til að nýta vefmiðil og alveg óþrjótandi samviskusemi og vandvirkni. Leikni hans í meðferð íslensks máls var víðkunn, og hann hafði líka mörg önnur tungumál á valdi sínu. Skák var eitt af áhugamálum hans og þar var kunnátta hans og geta langt fyrir ofan meðallag.
Það er erfiðara að taka þetta saman en greinarkornið fyrir ári. Ræður þar nokkru að þetta er gert í leyfisleysi, mig minnir hann hafi orðað það þannig að hann vildi fá að fara í friði, friði fyrir öllu tilstandi. Hlynur var hlédrægur og traustur, með ríka réttlætiskennd. Kannski ekki allra, og mátti alla ævi dragnast með svartan hund, sem er skelfilegur ferðafélagi.
Hann lét stundum í veðri vaka að hann gerði lítið með hrós, en ég hygg nú samt að honum hafi þótt vænt um það frá vinum.