Karlsey BA við bryggju í Reykhólahöfn í nafngjafanum Karlsey 31. júlí 2008. Reykhólar og Reykjanesfjall í baksýn.
Inni í höfninni 31. júlí 2008.
Utan á kantinum 23. júlí 2008.
Seint í maí 2009.
Karlsey BA ofarlega til vinstri í mynni Berufjarðar milli Hrafnaness og Borgarlands. Nær hægra megin eru sláttuprammar og trossa af þangpokum. Barmar í forgrunni.
Komin með fullfermi af þangpokum í mynni Berufjarðar.
Haldið af stað til hafnar með farminn. Bjartmarssteinn (Pjattarsteinn) fyrir handan.
Karlsey og Grettir í Reykhólahöfn á komudegi Grettis 15. maí 2011.
Ekki var neinn gleðisvip á Karlseynni að sjá daginn þegar Grettir kom.
Þörungaverksmiðjan hf. á Reykhólum hefur selt flutningaskipið Karlsey BA í brotajárn. Ráðgert er að skipið gamla kveðji sína heimahöfn - Reykhólahöfn í Karlsey - mjög fljótlega eftir áramótin. Kaupandinn er Jón P. Pétursson í Hafnarfirði fyrir hönd endurvinnslustöðvarinnar Van Heygen Recycling í borginni Gent í Belgíu, þar sem skipið mun enda ævi sína í stálbræðsluofnum. Vegferð Karlseyjar lýkur ekki svo mjög fjarri þeim stað þar sem hún hófst, því að skipið var smíðað í bænum Hoogezand í Hollandi. „Nei, ég sakna hennar ekkert“, segir Gylfi Helgason á Reykhólum, sem var skipstjóri á Karlsey í fjórðung aldar og stýrimaður nokkur ár þar á undan.