Sumarfrí á skrifstofu Reykhólahrepps
Vegna sumarleyfa verður skrifstofa Reykhólahrepps við Maríutröð á Reykhólum lokuð í tvær vikur frá næsta mánudegi, 28. júlí. Hún verður opnuð á ný með venjubundnum hætti mánudaginn 11. ágúst.
...Meira
Vegna sumarleyfa verður skrifstofa Reykhólahrepps við Maríutröð á Reykhólum lokuð í tvær vikur frá næsta mánudegi, 28. júlí. Hún verður opnuð á ný með venjubundnum hætti mánudaginn 11. ágúst.
...Í tilefni þess að 800 ár eru liðin frá fæðingu sagnaritarans mikla Sturlu Þórðarsonar verður Sturluhátíð haldin núna á sunnudag, 27. júlí, í Tjarnarlundi í Saurbæ. Dalabyggð stendur að hátíðinni, en Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti verður heiðursgestur. Samkoman hefst kl. 13.30 með setningarávarpi Sveins Pálssonar sveitarstjóra Dalabyggðar og ávörpum Einars K. Guðfinnssonar forseta Alþingis og Olemic Tommessen forseta norska Stórþingsins. Guðrún Nordal forstöðumaður stofnunar Árna Magnússonar flytur erindi um arfleifð Sturlu Þórðarsonar og Einar Kárason rithöfundur flytur efni um Sturlu sem hann kallar Hann vissi ég alvitrastan og hófsamastan.
...Dagskrá Reykhóladaganna 2014 hefst síðdegis í dag, fimmtudag, með bíósýningum fyrir krakka kl. 16 og 18 á Báta- og hlunnindasýningunni á Reykhólum. Síðan verður á sama stað Menningarsjokk á Bátakaffi frá kl. 21 til kl. 1 eftir miðnætti. Aldurstakmark er 18 ár og barinn opinn. Þarna verður Pubquiz sem Sigurður G. Valgeirsson stýrir og síðan eru tónleikar með hinum gamalkunnu og ástsælu Spöðum.
...Forsala miða á veisluskemmtun Reykhóladaganna í íþróttahúsinu á laugardagskvöld er í dag og á morgun, miðvikudag og fimmtudag, á Upplýsingamiðstöðinni á Reykhólum. Þá kostar miðinn kr. 5.000. Við innganginn kostar hann kr. 5.500 en samt þarf að panta fyrirfram í síma 434 7830 eða 894 1011 því að sætafjöldi er takmarkaður (fyrstir koma, fyrstir fá). Veislustjóri verður Halldór Gylfason leikari. Gummi kokkur sér um matinn, sem verður afturhásing af lambi með fersku grænmeti og meðlæti og síðan óvænt endalok með rjóma.
...Skelvinnslan Nesskel í Króksfjarðarnesi fékk í vor leyfi til pökkunar á bláskel (kræklingi). Núna sendir fyrirtækið skel til Reykjavíkur tvisvar í viku og fæst kræklingurinn þar á betri veitingahúsum. Líka er hægt að kaupa skel á markaðinum í Króksfjarðarnesi. Nesskel er í samstarfi við fyrirtækin Icelandic Mussel Company og Arctic Seafood, en skelin sem Nesskel pakkar og selur kemur að mestu úr Hvalfirði. Starfmenn fyrirtækisins við pökkunina í Króksfjarðarnesi eru Bergsveinn G. Reynisson og Signý M. Jónsdóttir á Gróustöðum og Stefán Rafn Kristjánsson í Efri-Múla.
...Arnarsetur Íslands er í kaupfélagshúsinu gamla í Króksfjarðarnesi, rétt þegar komið er vestur yfir Gilsfjörð. Það er við hæfi að velja setri helguðu konungi fuglanna stað í Reykhólahreppi, því að mikill hluti íslenska arnarstofnsins á búsvæði og varpstaði við Breiðafjörð. Meðal þess sem þarna getur að líta er uppstoppaður örn í öllu sínu veldi. Það sem ekki síst vekur athygli er að þegar gengið er í kringum hann fylgir hann manni með augunum (reyndar bara öðru í einu, af skiljanlegum ástæðum). Þetta kann að þykja ótrúlegt, en svona er það (skoðið bara myndirnar sem hér fylgja). Sumum finnst þetta dálítið óþægilegt, jafnvel „krípí“, eins og einhver sagði.
...„Húsið er fullt af bókum! Í tilefni af því verða þær á tilboði í dag (og mögulega lengur): 2 fyrir 1, og þeir sem kaupa tvær eða fleiri fá kilju í kaupbæti,“ segja þau hjá Handverksfélaginu Össu. Handverks-, nytja- og bókamarkaður Össu í kaupfélagshúsinu gamla í Króksfjarðarnesi er opinn alla daga í sumar kl. 12-18. Þar er líka heitt á könnunni. Í einni vistarverunni er Arnarsetur Íslands til húsa.
...Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur samþykkt að óska eftir fundi með sveitarstjórnum Reykhólahrepps og Strandabyggðar á haustmánuðum til að kanna möguleikana á sameiningu sveitarfélaganna þriggja. Í skoðanakönnun sem gerð var í Dalabyggð samhliða kosningunni til sveitarstjórnar í vor kom fram, að talsverður meirihluti þeirra sem afstöðu tóku vildi sameiningu við annað eða önnur sveitarfélög. Í sams konar könnun sem gerð var í Reykhólahreppi var afar mjótt á munum. Rétt liðlega helmingur þeirra sem afstöðu tóku (munaði aðeins fjórum atkvæðum) var hlynntur sameiningu en sá hópur hafði á hinn bóginn ýmsar skoðanir á því hvaða sveitarfélagi eða sveitarfélögum skyldi þá sameinast.
...Eins og hér kom fram var Bátadögum á Breiðafirði 2014 frestað um vikutíma sakir veðurs. Þeir voru síðan haldnir dagana 12.-13. júlí og heppnuðust vel. Fyrri daginn var siglt á átta bátum grunnt með landi frá Reykhólum og út í Staðarhöfn. Bjart var í veðri en nokkuð stíf norðaustanátt og herti heldur. Það reyndi því aðeins á og vélar í tveim bátanna biluðu smávegis. Seinni daginn var mun betra veður og var þá siglt á fimm bátum inn á Djúpafjörð og síðan Þorskafjörð og þaðan til baka í Staðarhöfn.
...Bátabíóið er fyrsti liðurinn á dagskrá Reykhóladaganna 2014 með sýningum kl. 16 og 18 á fimmtudeginum. Eins og áður gefst börnum jafnt sem fullorðnum kostur á því að velja úr myndum á hvora sýningu. Kosningin stendur fram á mánudag og þá um kvöldið verður greint frá því hvaða myndir hafa orðið fyrir valinu.
...