Íþróttahúsið fullsetið á Reykhóladeginum 2008
Meira
Flokksráð Vinstri grænna hafnar hugmyndum um lögbindingu lágmarksstærðar sveitarfélaga. Eins og fram hefur komið hyggst ráðherra sveitarstjórnarmála leggja fram frumvarp þess efnis, að lágmarksfjöldi í sveitarfélagi verði þúsund manns. Í ályktun sem samþykkt var á fundi flokksráðs VG í gær segir: „Íbúar eiga að hafa svigrúm og sjálfræði til að meta kosti og galla sameiningar við önnur sveitarfélög og ákveða með hvaða hætti samstarfi þeirra á milli skuli háttað. Flokksráðið telur brýnt að úttekt verði framkvæmd á efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum þeirra sameininga sem hafa átt sér stað á undanförnum árum."
„Það er með ólíkindum að þegar hrávara hækkar í heiminum, og matvæli þar ekki síst, skuli það vera bændur á Íslandi sem taki á sig skerðinguna einir framleiðenda. Ekki nóg með að vaxtakostnaður og innkaupakostnaður hækki um tugi prósenta hjá þessari stétt heldur þurfa þeir líka að sætta sig við litla sem enga hækkun afurðaverðs." Þetta segir Grímur Atlason, bæjarstjóri í Dalabyggð, í ítarlegum pistli á bloggi sínu sem birtist undir Sjónarmið í valmyndinni hér til vinstri. Pistillinn ber yfirskriftina Hin heimska hönd hagræðingarinnar. Þar segir Grímur enn fremur:
...Hér var í gær farið stórum orðum um ástand vegarins um Þorskafjarðarheiði. Þau ummæli voru byggð á frásögnum vegfarenda í síma og tölvupósti bæði við undirritaðan umsjónarmann þessa vefjar og við fréttavefinn bb.is á Ísafirði. Undirritaður grípur stundum í fréttaskrif fyrir bb.is og fékk beiðni þaðan um að skrifa frétt um þetta mál vegna kvartana sem þangað höfðu borist. Þá þegar hafði undirritaður fengið símtal frá manni sem bölvaði því innilega að hafa valið þessa nánast ófæru leið, að hann sagði, og var hann þó á bíl með sídrifi á öllum hjólum. Nú virðist sem lýsingar þessar hafi verið nokkuð orðum auknar og vegurinn um Þorskafjarðarheiði sé ekki alveg eins hábölvaður og ætla mátti af lestri fréttarinnar.